139. löggjafarþing — 33. fundur,  23. nóv. 2010.

vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl.

197. mál
[15:16]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Varðandi notaða flotann, annaðhvort misskil ég eitthvað eða ég ímynda mér að þetta komi þannig út að einmitt þeir bílar sem hækka í innkaupum vegna breytinganna ættu þá að halda betur uppi verði sambærilegra notaðra bíla sem eru í landinu, þannig að þeir sem eiga stærri bílana í dag ættu ekki að þurfa að kvíða því. Það eru frekar hinir, sem eiga minni eða meðalstóra bíla og lenda í samkeppni við það að innflutningur á slíkum bílum sem losa minna er nú gerður ódýrari, sem ættu að hafa áhyggjur af verði síns bílaflota.

Ég held reyndar að þær áhyggjur séu óþarfar að verulegu leyti einfaldlega vegna þess að það stórdró úr bílainnflutningi hér og hann hefur haldist svo lítill í tvö ár að það ætti ekki að vera ástæða til að ætla að það verði erfitt að fá sanngjarnt verð fyrir þann notaða bílaflota sem til staðar er í landinu.

Varðandi skattalegu skýringuna þá kemur hún úr báðum áttum. Það er bæði verið að gera þessa bíla ódýrari í innkaupum og að hluta til (Forseti hringir.) ódýrari í rekstri. Þannig að þeim tækjum er beint úr báðum áttum til að reyna að stuðla að réttri þróun.