139. löggjafarþing — 33. fundur,  23. nóv. 2010.

vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl.

197. mál
[15:32]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég skil sjónarmið hv. þingmanns og áhyggjur. Ég held að þessi skarpa aðgreining hans í landsbyggð og höfuðborgarsvæði og þéttbýli hins vegar liggi ekki alveg svona. Það er ekki eins mikið áhyggjuefni og hv. þingmaður telur. Það er í fyrsta lagi vegna þess, eins og ég fór yfir í ræðu minni, að það er heilmikið framboð af brúklegum fjórhóladrifsbílum, jeppum, jepplingum og meðalstórum jeppum, sem ýmist lækka við þessar breytingar eða standa í stað í innkaupum. Áhrifin á rekstrarkostnað núverandi bílaflota eru óveruleg. Það eru fyrst og fremst stærstu og eyðslufrekustu bílarnir sem taka þetta á sig í innkaupum. Það er talsverður floti af þeim hér eins og kunnugt er.

Við eigum að sameinast um að gera landsbyggðinni kleift — það þarf stuðning til að taka að fullu þátt í þróuninni í átt að umhverfisvænum orkugjafa eins og í metanvæðingu. Það getur vel verið að það þurfi að grípa til einhverra ráðstafana til þess að hún verði ekki alveg út undan í þeirri þróun.

Varðandi flutningskostnaðinn er það að sjálfsögðu tilfinnanlegt sem hv. þingmaður nefnir. Við þekkjum öll þá þróun, hún er ekki bara tilkomin vegna aðgerða núverandi ríkisstjórnar og vantar mikið upp á það eins og hv. þingmaður veit vel. Það má gagnrýna okkur fyrir að hafa ekki, þrátt fyrir erfiðar aðstæður, reynt að snúa þróuninni við, t.d. með því að taka upp strandsiglingar eða annað í þeim dúr. Þó höfum við sannarlega gert þar hluti sem ganga í rétta átt. Ég minni á að í breytingunum 2009 hækkuðum við olíugjaldið aðeins um helming af því sem bensíngjaldið var hækkað og náðum að færa verðið á dísillítranum niður að því sem bensínið er. Þróunin hafði snúist við frá því sem upphaflega var áætlað með innleiðingu gjaldanna og dísillítrinn var orðinn mörgum krónum dýrari en bensínið. Við hlífðum sömuleiðis þungaskattinum við þeirri hækkun að verulegu leyti. Þá voru aðgerðirnar markvisst útfærðar til þess að hafa sem minnst íþyngjandi áhrif á landsbyggðina og flutningskostnaðinn.