139. löggjafarþing — 33. fundur,  23. nóv. 2010.

vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl.

197. mál
[15:37]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Þetta snýr fyrst og fremst að endurnýjun bílaflotans, breytingarnar sem hafa áhrif. Við megum ekki dæma þetta út frá núverandi samsetningu hans. Spurningin er hvaða aðstæðum standa menn frammi fyrir þegar þeir þurfa að ráðast í að endurnýja núverandi bílaflota, það gildir jafnt um landsbyggðina sem höfuðborgina. Það er augljóst að menn eiga kost á góðum fjórhjóladrifsbílum til vetraraksturs sem ýmist lækka eða standa í stað í þessari skattlagningu. Það er auðvelt að sýna fram á það. Ég á langan lista yfir það hvernig þetta kemur út fyrir einstakar tegundir. Þetta hefur verið rækilega skoðað í undirbúningi þessa máls. Það hefur verið mikið legið yfir þessum þætti af því við erum okkur meðvituð um það í fjármálaráðuneytinu, m.a. húsbóndinn, að það er til landsbyggð á Íslandi. Þó mér þyki vænt um áminningarnar þarf ekki að segja mér það kvölds og morgna að það sé til strjálbýli á Íslandi, ég þekki eitthvað inn á það sjálfur.

Ef við skoðum stöðu bænda og veltir henni fyrir sér, þá kemur t.d. í ljós að sú þróun hefur víða átt sér stað að vinnutækin eru vaskbílar, pallbílar og aðrir slíkir en fjölskyldubílarnir eru minni og sparneytnari, kannski litlir og meðalstórir fjórhjóladrifsbílar. Ef þetta væri greint svoleiðis, og ekki bara nota hlutföllin fjórhjóladrifsbílar versus þeir sem eru eindrifa því þau segja ekki alla söguna, þá er ég ekki viss um að munurinn sé skýr á milli landsbyggðar og höfuðborgarsvæðis þegar þetta er skoðað. Að sjálfsögðu er gagnlegt að hv. nefnd fari rækilega yfir þetta. Ef hún finnur eitthvað betra út úr þessu en margra mánaða yfirlega þeirra sem unnið hafa að undirbúningi frumvarpsins, þá er að sjálfsögðu rétt og skylt að fara ofan í það.

Ég get alveg fullvissað hv. þingmann um að legið var yfir þessum hlutum. Varðandi raforkuverðið — já, að sjálfsögðu væri gott að hafa meiri peninga til að niðurgreiða hærra raforkuverð á köldum svæðum. En framsóknarmenn ættu að kannast við hvað ýtti verðinu upp. Það er innleiðing orkutilskipunar Evrópusambandsins. Ég veit að ég þarf ekki að fræða framsóknarmenn um það hvernig það gekk fyrir sig.