139. löggjafarþing — 33. fundur,  23. nóv. 2010.

vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl.

197. mál
[15:41]
Horfa

Þór Saari (Hr):

Frú forseti. Við ræðum frumvarp til laga um breytingar á vörugjaldi af ökutækjum. Verið er að gera ansi viðamikla kerfisbreytingu. Við í efnahags- og skattanefnd fengum kynningu á frumvarpinu í síðustu viku. Hún var um margt mjög skemmtileg. Ég mun ekki vera með langa ræðu um þetta mál. Ég mun fyrst og fremst benda á helstu ágallana sem ég tel vera á því.

Um er að ræða kerfisbreytingu sem alla jafna væri til mikilla bóta en er það samt ekki vegna umgjarðarinnar sem er um málið eins og það er lagt fram í þinginu. Ég tel mig vera umhverfissinna og mundi fagna því ef hægt væri að ná niður losun gróðurhúsalofttegunda að einhverju marki. Við sjáum það fjölmarga daga ársins á höfuðborgarsvæðinu hvað Íslendingar anda að sér menguðu og óheilnæmu lofti, núna þessa daga og undanfarna viku. Þetta ástand þarf ekki að vera eins og það er ef til staðar væri stefnumörkun stjórnvalda. Ekki endilega þeirra sem eru við völd í dag heldur undanfarin ár.

Menn hafa kosið að fara þá leið að viðhalda einkabílisma. Þeir hafna leiðinni sem almenningssamgöngur bjóða upp á á einhverjum reiknikúnstarreglum um að almenningssamgöngur skili ekki hagnaði. Hvergi nokkurs staðar í heiminum skila almenningssamgöngur hagnaði. Það er ekki markmiðið með almenningssamgöngum. Markmiðið er að ná fram umferðarlegri hagkvæmni, minni mengun og þjóðhagslegum sparnaði. Það hefur ekki verið gæfa okkar Íslendinga að feta þá leið.

Hvað varðar losun gróðurhúsalofttegunda gengur frumvarpið ekki nógu langt í því vegna þessa hefðbundna karps sem væntanlega hefur verið um frumvarpið áður en það var lagt fram. Það gerir það að verkum að hvorki eru meira né minna en 29 undanþáguflokkar í frumvarpinu, voru 30. Að sögn var 30. flokkurinn tekinn út vegna þess að hann innihélt tvo líkbíla. Ég veit ekki hvort það er rétt en að lesa undanþágulistann segir manni að sérhagsmunaaðilar á Íslandi hafa gríðarleg ítök. Þeir sem menga mest og keyra mest fá undanþágu; bílaleigubílar, leigubílar, vöruflutningabílar, stærstu bílarnir, mengunarmestu bílarnir og þeir sem keyra mest. Það væri auðveldlega hægt að jafna þessa byrði og henda þessum undanþágulista út. Ég er búinn að merkja við slökkvibifreiðar, sjúkrabifreiðar, björgunarsveitarbíla og sitthvað þess háttar sem mætti áfram vera þarna inni. Það væri einfaldlega hægt að lækka gjöldin til mikilla muna og koma til móts við sjónarmiðin sem eru vissulega réttmæt að á sumum svæðum landsins þarf fólk að vera á betur útbúnum bílum en í Reykjavík.

Þetta frumvarp mun þar af leiðandi ekki hafa áhrif á losun gróðurhúsalofttegunda vegna þess að þeir sem menga mest hafa enga peningalega hvata til þess að draga úr menguninni. Þeir sem keyra mest hafa ekki peningalega hvata til að draga úr menguninni miðað við framsetninguna á frumvarpinu. Þetta lítur út eins og verið sé með blekkingar í gangi frekar en stefnu til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Það er verið að færa til skattheimtu undir þeim formerkjum að verið sé að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Hugmyndin virðist fyrst og fremst vera sú að færa til skattheimtuna.

Þetta er ekkert ósvipaður leikur og var viðhafður í fyrravetur þegar fram kom frumvarp um svokallaða auðlindaskatta. Þegar grannt var skoðað var þetta einfaldlega neysluskattur á notkun almennings á heitu og köldu vatni og rafmagni. Það var ekki verið að skattleggja auðlindarentuna þar sem auðlindin er nýtt. Vegna sérhagsmuna var fallið frá þeirri leið og skattinum velt yfir á neytendur. Þannig að hér er farið í sömu fótspor. Ég hefði ekki vænst þess að nálgunin við brýn umhverfismál frá Vinstri hreyfingunni – grænu framboði yrði að fara þessa leið. Ég hefði vænst þess að meiri sannfæring væri á bak við græna hlutann í nafni framboðsins, ekki síst þar sem um er að ræða frumvarp frá formanni flokksins.

Það má lækka gjöldin umtalsvert með því að fækka undanþágum, sérstaklega í þeim flokkum sem mikið eru notaðir. Þar á ég ekki síst við bílaleigubíla. Ísland er hagkvæmt ferðamannaland heim að sækja. Það er engin ástæða til þess að hlífa erlendum ferðamönnum við að greiða kostnað af því að menga andrúmsloftið á Íslandi. Ég skil ekki röksemdafærsluna á bak við þetta, nema hún skýri sig með því einfalda gamaldags ráði að menn hafi bankað á dyr fjármálaráðuneytisins og beðið um hjálp.

Það sem ég sé í frumvarpinu er skortur á stefnumótun og ákveðni stjórnvalda til þess að vilja fylgja einhverri stefnu í umhverfismálum. Einnig sé ég skort á stefnumótun og ákveðni til þess að nýta aðra orkugjafa, svo sem metan. Hér er og hefur verið sýnt fram á af hálfu metanáhugamanna að það er athyglisverður orkugjafi. Þessi orkuskipti sem talað er um gætu minnkað mengun í andrúmslofti umtalsvert og sparað þjóðinni stórfé í erlendum gjaldmiðli. Hér vantar frekari stefnumótun og ákveðni. Í framhaldi af frumvarpinu langar mig að kalla eftir því að ríkisstjórnin setji sér markmið í þessum málum en komi ekki fram með alls konar frumvörp sem í rauninni þykjast vera að taka á umhverfismálum en gera það ekki þegar upp er staðið.