139. löggjafarþing — 33. fundur,  23. nóv. 2010.

vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl.

197. mál
[15:49]
Horfa

Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Ég hlýði með athygli á ræðu hv. þm. Þórs Saaris. Það verður þó að taka fram að það sem hann segir um undanþágur á aðeins við um vörugjöldin og ekki bifreiðagjöldin þar sem ekki er um slíkar undanþágur að ræða. Það verður að reikna frumvarpinu það í hag að svoleiðis er það og ekki taka bara hina neikvæðu sýn á frumvarp sem mér þykir á margan hátt mjög merkilegt og valda ákveðnum tímamótum þó að það sé að sjálfsögðu ekki nákvæmlega eins og maður helst vildi hafa það á þeim tímum sem um er að ræða. Um vörugjaldið er það að segja að það er nokkuð gegnholaður skattur, óvinsæll af ýmsum ástæðum og réttilega svo. Ég hef heyrt skattfróða menn tala um það sem markmið að leggja vörugjaldið niður vegna þess að það hafi óþægileg og óheppileg áhrif á viðskipti, og skattheimtan eigi að fara fram með öðrum hætti.

Það er rétt, og síðan er hitt að undanþágurnar eru alltaf vondar í allri skattheimtu og allri skattkerfisskipan. Virðisaukaskattur er einn sjálfsagðasti skattur sem hægt er að leggja á, ég held að flestir séu sammála um það. Hann er hins vegar ákaflega hár hér á landi, svo hár að ágætur pistlahöfundur talaði um hann um daginn í Fréttablaðinu sem sérstakan lúxusskatt, það var spurning um virðisaukaskatt á smokka. Þá er auðvitað illa farið ef við erum komin með svo háan venjulegan skatt að talað er um hann sem lúxusskatt en eðlileg skattheimta sé undanþágurnar.

Við erum í blindgötu í þessu efni en verðum víst að sætta okkur við að vera það um einhverja hríð áfram þangað til við förum að síga upp á við í efnahagsmálum.