139. löggjafarþing — 33. fundur,  23. nóv. 2010.

vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl.

197. mál
[15:55]
Horfa

Þór Saari (Hr) (andsvar):

Ég þakka hv. þingmanni fyrir athugasemdirnar. Ég tek undir þær heils hugar, frumvarpið er of seint fram komið. Það er hröð þróun í þessum losunarvænni bílvélum. Eins og fram hefur komið í máli fjármálaráðherra eru nú þegar til staðar mjög vistvænar bílvélar sem þrátt fyrir stærð menga miklu minna en þær gerðu fyrir kannski einu eða tveimur árum. Þróunin er í rétta átt og ég leyfi mér að vona að þetta sé e.t.v. fyrsta skrefið á þeirri vegferð sem væntanlega kemur einhvern tímann, að þeir sem menga mest og keyra mest muni borga mest, þ.e. það verði hér eins og kemur fram í sumum atriðum frumvarpsins, mæld losun á ekinn kílómetra. Þá erum við búin að ná því markmiði að hvetja fólk til að kaupa sparneytna bíla og líka til þess að keyra minna. Öðruvísi náum við ekki þeim tilgangi sem er mjög brýnn, að draga úr mengun í andrúmslofti.

Eins og ég nefndi áðan sjáum við, og ég sé það þar sem ég bý rétt fyrir utan Reykjavík, mjög marga daga á ári gula slikju sem hvílir yfir höfuðborginni og mér finnst hálfóhugnanlegt að þurfa að keyra inn í hana til að komast í vinnu. (Gripið fram í: Nohh.) Vonandi er þetta frumvarp fyrsta skrefið á þeirri leið að (Gripið fram í.) það verði gott útsýni áfram inn til Reykjavíkur eins og var fyrir nokkrum árum.