139. löggjafarþing — 33. fundur,  23. nóv. 2010.

vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl.

197. mál
[16:07]
Horfa

Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Fyrir hönd þingsins þakka ég fyrir þessa góðu kennslustund í því hvernig á að minnka kolefnislosun í heiminum og bjarga móður jörð. Ég hef ekkert á móti því að ræða þetta við hv. þingmann en skil samt ekki alveg hvað það kemur því máli við sem við erum hér að fjalla um sem er þessi breyting á bifreiðagjaldi, vörugjaldi og reyndar fleiri bílasköttum, í umhverfisvæna átt. Er það þannig að með byggingu álvera á Íslandi, þeirra tveggja sem núna eru í undirbúningi og kannski 3–4 í viðbót — þá værum við nokkurn veginn búin með alla þá orku sem til er í villtustu draumum þeirra sem hafa sömu stefnu og hv. þingmaður í þessu efni — stigjum við stór skref til þess að minnka kolefnislosun í heiminum? Er líklegt að álverin sem núna eru vissulega að rísa, það er rétt, í Sádi-Arabíu, Kúveit og í furstadæmum þarna nálægt sem taka við ódýrri orku — það er auðvitað aðalástæðan að orkan er ódýr — mundu hætta við ef hér kæmu Helguvík og Bakki og 3–4 önnur sem hv. þingmaður vill reisa? Er líklegt að Kínverjar mundu hætta við þá nokkra tugi álvera sem þeir eru með í undirbúningi í sínu heimalandi, ég fer nú ekki út fyrir það, ef þeir sæju fram á þessa gríðarlegu samkeppni frá Helguvík, Bakka og þeim 3–4 öðrum stöðum sem þingmaðurinn nefnir? Telur hann í raun og veru að svo sé eða er hann bara að leika sér að því að lengja þessa umræðu af einhverjum ástæðum?