139. löggjafarþing — 33. fundur,  23. nóv. 2010.

vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl.

197. mál
[16:39]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Ég get í sjálfu sér tekið heils hugar undir það sem hv. þingmaður segir að auðvitað er ekki líku saman að jafna að búa, eins og hann nefndi, til að mynda í Norðurfirði á Ströndum eða á Langanesi. Það má í sjálfu sér hugsa sér eða ég gæti alla vega hugsað mér einhvers konar aðlögunartíma meðan verið er að finna leiðir til að koma t.d. afurðum eins og bíódísli á þessa staði. Við vitum hins vegar að í dag eru framleiddir a.m.k. á tveimur stöðum á landinu umhverfisvænir orkugjafar sem er hægt að nota á dísilbíla óbreytta. Nú verð ég að upplýsa þá fáfræði mína að ég veit ekki nákvæmlega hversu auðvelt er að koma þeim afurðum í þessar dreifðu byggðir eða hversu auðvelt verður að koma því í verk. En eins og ég sagði áðan held ég að meginhugsunin í frumvarpinu, þ.e. að reyna að beina fólki í þessa kosti, sé afar mikilvæg og möguleikar landsbyggðarinnar á því að komast í þessa kosti og geta notað þá á sama hátt og aðrir muni aukast á næstu árum. Spurningin er þá kannski, eins og hv. þingmaður kemur inn á, hvort við getum með einhverju móti mildað breytingaferlið.