139. löggjafarþing — 33. fundur,  23. nóv. 2010.

vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl.

197. mál
[16:41]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að það sé mjög mikilvægt að skoða þetta í stóra samhenginu. Það er alveg rétt sem fram kom hjá hv. þingmanni að það munu verða miklar breytingar á næstu árum og eru að verða sem betur fer. Það eru fleiri að gera sér grein fyrir því að hægt er að framleiða lífrænan dísil úr repju eins og menn tala um t.d. á Akureyri, gas á sorphaugum eða slíkt. Það er alveg ljóst að það mun verða þannig. Framtíðarsýn okkar Íslendinga á vitanlega að vera sú að reyna að vera sjálfum okkur nóg í þessu. Ég sé fyrir mér í framtíðinni að við verðum farin að keyra alla vega hluta af fiskiskipaflotanum á umhverfisvænu eldsneyti o.s.frv.

Raunin er sú í dag að mjög stór hluti íbúa landsbyggðarinnar þarf yfir fjallvegi að fara til að sækja þjónustu, þjónustu hins opinbera jafnvel og slíkt. Ég tala nú ekki um ef þau ósköp ganga eftir sem boðuð eru í fjárlagafrumvarpinu að íbúarnir þurfi að sækja heilbrigðisþjónustu um langan veg. Sú staðreynd að við búum á Íslandi gerir það að verkum að það er mjög mismunandi í hvaða stöðu íbúar landsins eru. Það má vel hugsa sér að það geti gengið upp á ákveðnum stöðum í landinu, sérstaklega kannski á suðvesturhorninu, að reyna að ýta sem flestum í smábíla og litla bíla en ég fullyrði, frú forseti, að það gengur ekki víðast hvar í hinum dreifðu byggðum úti um land þar sem fólk kemst jafnvel varla út úr sínum húsagötum á veturna eða þarf að fara með börn í skóla úr sveitunum. Það er ólíku saman að jafna.