139. löggjafarþing — 33. fundur,  23. nóv. 2010.

vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl.

197. mál
[16:52]
Horfa

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Þessi umræða, eins þörf og hún er, hefur farið nokkuð um víðan völl. Rætt hefur verið um húshitun á landsbyggðinni og mikið um ál í heiminum og það er kannski ekki rétt að skipta sér mjög af þeirri umræðu.

Erindi mitt hingað var að minnast á nokkra þætti þessa máls. Ég vil þó segja strax að ég tel það vera mjög merkilegt og kannski ekki hafa hlotið það lof sem það á skilið. Menn hafa mikið verið að tauta, eins og eðlilegt er í þessum efnum. Hver horfir á sjálfan sig og síðan á hina. Tæknilegu málin, sem má kalla, verða auðvitað könnuð í nefnd og það er algerlega eðlilegt að skoða líka þær byggðapólitísku röksemdir sem komið hafa fram og hæstv. ráðherra minntist á í framsöguræðu sinni og gerði grein fyrir.

Við verðum auðvitað að átta okkur á því líka að það verður ekki bæði sleppt og haldið í þessu. Ef meginhugsunin í þessu, að búa til hvata til að minnka mengun, rekst á við þau markmið að íþyngja ekki bíleigendum á landsbyggðinni verður markmiðunum ekki náð. Það verður ekki bæði sleppt og haldið í því efni. Ég skal ekkert um það segja og bíð eftir niðurstöðunni af vinnu manna í nefndinni í þessu efni og umræðu í samfélaginu. En ég hef enga trú á því að gagnvart byggðunum sé verulegur munur á því hvort skattlagt er eftir stærð eða sprengirými annars vegar eða þyngd eða heildarmengun hins vegar. Ég held að það hljóti að vera bitamunur en ekki fjár.

Þetta er merkilegt frumvarp og það sem ég sagði um það áðan, að megingalli þess væri sá að það væri of seint fram komið, má ekki misskilja. Þá átti ég ekki við að hæstv. fjármálaráðherra væri seinn á ferð heldur að þetta frumvarp hefði betur komið fram fyrir fimm eða tíu árum, ég hafði ekki lengri tíma undir. Það þurfti auðvitað að fara fram ákveðið undirbúningsstarf og á sínum tíma fór fram nefndavinna sem ég hygg að hafi verið lokið um miðjan áratuginn sem nú er að hverfa í aldanna skaut. En þau prýðilegu störf í nefndunum sem fóru í gegnum þetta voru lítils metin og ekkert gert í málinu af einhverjum ástæðum. Kannski hafa viðkomandi stjórnmálamenn verið hræddir við m.a. byggðapartinn af málinu og ekki treyst sér til að vinna því stuðning.

Ég man líka eftir því í kosningabaráttu þegar það lið sem ég keppti með og geri enn lagði til umhverfisskatta. Þá var svar ýmissa annarra flokka við því það að hér ætti að fara að hækka bifreiðagjöld þannig að sú heildarstefnubreyting var afgreidd mjög billega í von um að geta æst menn til andstöðu á grundvelli skammtíma peningalegra hagsmuna.

Við skulum fagna því að menn eru orðnir sammála um að þetta beri að gera með einhverjum hætti og þá er það verkefni fram undan að reyna að gera það eins vel og hægt er.

Rétt er að minna á smátt mál en táknrænt í þessu af því að það hefur ekki komið fram í umræðunni, en það varðar pallbílana. Pallbílarnir voru einmitt tákn fyrir þá vitleysispólitík sem við leyfðum okkur að stunda hér á landi á tímanum fyrir 2007. Þá voru pallbílarnir settir í sérflokk í skattheimtu af því að sumir þeirra voru vissulega atvinnutæki og ekki var hægt að greina á milli þess hverjir þeirra væru atvinnutæki og hverjir ekki sem leiddi til mikillar þenslu í pallbílakaupum. Góðborgararnir voru flestir komnir á pallbíla sem þeir borguðu minna af en venjulega fólkið við hliðina. Það er afnumið með þessu frumvarpi, ef að lögum verður, og er kominn tími til.

Það sem ég kom hér til að segja m.a. er að ég er ekki að öllu leyti ánægður með þá meðferð sem metanbílarnir fá í frumvarpinu. Afslátturinn á vörugjaldi sem metanbílar fá er ekki hærri en þessar 750 þús. kr. Ég skal ekki ræða þá upphæð mikið, hana þarf að ræða í nefndinni og er rétt að skoða þá gagnrýni sem komið hefur fram á upphæðina í umræðunni. En ég vek athygli á því að þar er aðeins átt við framleidda og skráða metanbíla, þ.e. þá sem hlotið hafa svokallaða gerðarvottun sem kemur með metanbílum sem renna út úr verksmiðju sinni sem slíkir. Um undanþágu frá bifreiðagjaldi er bæði talað um framleidda og skráða metanbíla en líka þá sem breytt hefur verið og fengið hafa um það vottorð frá skoðunarstofu. Það er 9. gr. en hin fyrri var 1. gr. Það er sérkennilegt misræmi og engin ástæða til að viðhalda því, það þýðir að menn geta ekki fengið vörugjaldið endurgreitt eða lækkað á bíl sem breytt hefur verið í metanbíl með tilteknum hætti. En það ætti í raun og veru að vera tæknilega auðvelt að fá vottorð um það frá skoðunarstofunni og síðan reynt að koma því í einhvers konar einfalt kerfi þannig að vörugjaldið verði lækkað í einhverju hlutfalli við áætlaðan notatíma af bílnum.

Ég spyr um þann sérstaka mun og vek athygli fjármálaráðherra, sem því miður er ekki viðstaddur í sæti sínu en þyrfti eiginlega að vera þar, á honum og jafnframt hvernig hann sé varinn. Ég sé ekki að það séu sannfærandi rök fyrir því í athugasemdum við frumvarpið, þetta er undarlegur munur.

Ég vil líka í þessu sambandi minna á að líklega er til umræðu einhvern næstu daga frumvarp mitt og fleiri þingmanna um metanbifreiðir, um vörugjald af ökutækjum þar sem gert er ráð fyrir endurgreiðslu á breyttum bílum. Ég hvet til þess að það frumvarp verði tekið til athugunar í nefndinni þegar það er komið þangað, sem verður vonandi á næstunni. Þar er sem sagt gert ráð fyrir því að það verði sem ekki er í þessu frumvarpi fram tekið. Ég lýsi eftir því, forseti, að hæstv. fjármálaráðherra gangi í salinn og hlýði á orð ræðumanns sem hann beinir sérstaklega til hans og leyfi mér þess vegna að endurtaka þau, en það er þannig, forseti, hæstv. fjármálaráðherra til fróðleiks og undrunar, að gert er ráð fyrir því að metanbílar sem fara í sérstakan vörugjaldsflokk séu eingöngu framleiddir og skráðir sem slíkir, þ.e. frá verksmiðjunni. Bæði hinir framleiddu og skráðu metanbílar eru undanþegnir bifreiðagjaldi en einnig þeir sem breytt hefur verið í metanbíl, bílar upprunalegrar gerðar sem breytt hefur verið í metanbíl og fengið um það vottorð frá skoðunarstofu. Þetta er töluvert mikilvægt mál, ekki aðeins sem jafnréttis- og sanngirnismál heldur einnig sem atvinnumál vegna þess að það er, eins og bæði ég og hæstv. fjármálaráðherra vitum, töluverður hugur í mönnum í metanbílabreytingum og ekki vitlaust á okkar tímum að þær fari fram innan lands frekar en að eina leiðin til að ná í metanbíl á þeim kjörum sem ríkið hyggst bjóða áhugamönnum um það sé að fá þá að utan þannig að sú vinna fari fram þar.

Þetta er allt sem ég ætlaði að segja fyrir utan það að fagna þessu frumvarpi. Ég bendi á að þó að frumvarpið fari í sína nefnd er það auðvitað umhverfismál öðrum þræði og ég tel rétt að bjóða fram starfskrafta umhverfisnefndar við mat á því og vinnslu ef þörf þykir á.