139. löggjafarþing — 33. fundur,  23. nóv. 2010.

vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl.

197. mál
[17:16]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir þá ágætu umræðu sem orðið hefur. Ég er ánægður með að allir ræðumenn, að ég tel, hafi lýst sig fylgjandi þeirri grundvallarkerfisbreytingu sem hér er á ferðinni eða a.m.k. þeim markmiðum sem menn ætla sér að ná, að reyna að þróa umferðina í umhverfisátt og draga úr losun gróðurhúsalofttegunda.

Það er rétt að halda því til haga svo því sé sómi sýndur að að stofni til eru þessar tillögur afrakstur nefndarstarfs sem sett var af stað í tíð forvera míns í embætti, Árna M. Mathiesens. Starfshópur á vegum hans skilaði áliti í maímánuði 2008 sem var held ég talsvert á lofti haldið, að þar væru boðaðir breyttir tímar í skattamálum á umferðina. Ætli ég leyfi mér ekki að segja að þær ágætu tillögur sem síðan hafa verið í skoðun séu með því betra sem ég fékk í arf frá forvera mínum. Var ákveðið að láta framkvæmdina bíða vegna þess hve mikið var færst í fang á árinu 2009, en nú er sem sagt verið að hrinda þessu í framkvæmd og búið að uppfæra tillögurnar lítillega. Reyndar er aðeins búið útvíkka hugmyndirnar hvað varðar að taka inn undir þetta alla þá vistvænu orkugjafa sem okkur sýnist að líklegt sé að Íslendingar muni nýta sér á næstu árum.

Mér fannst hv. þm. Þór Saari eiginlega tala um eitthvert annað frumvarp en hér er á ferðinni því að hann taldi ekki að tillögurnar mundu ná settum markmiðum og vera eitthvað allt annað. Ég segi alveg hiklaust að tillögurnar eru að mínu mati verulegt flagg í umhverfismálum, þær eru mikil kerfisbreyting og fylgja í kjölfar fleiri hugmynda sem hrundið hefur verið í framkvæmd þannig að á þessum tímum er að verða umtalsverð breyting, verði þetta að lögum, á því hvernig við nálgumst skattlagningarmál með hliðsjón af umhverfinu. Í fyrra innleiddum við kolefnisgjald á allt jarðefnaeldsneyti. Það er í sjálfu sér ótengt umferðinni sem slíkri eða hver notandinn er þannig að nú greiða allir sem nota fljótandi jarðefnaeldsneyti tiltekið kolefnisgjald sem er um helmingur af verði losunarheimilda innan ESB og er ætlunin að það fari í 75% á næsta ári. Þar með erum við að því leyti til komin með losunargjald á allt jarðefnaeldsneytið. Síðan erum við að stíga stórt skref í því að stuðla að tiltekinni þróun í umferðinni. Þarf að vinna að því á mörgum sviðum því að Íslendingar eiga auðvitað mikla möguleika á því að gera orkubúskap sinn með því allra sjálfbærasta sem um getur ef rétt er á málum haldið. Þar spila náttúrlega stærsta hlutverkið þeir möguleikar sem eru til þess að færa notkun á innfluttu jarðefnaeldsneyti yfir í aðra orkugjafa eða orkumiðla úr okkar grænu orku. Þar er sannarlega mikið að vinna.

Gróðurhúsaáhrifin hefur borið svolítið á góma og álver og margt fleira í þessari ágætu umræðu. Ég held að því sé alveg til haga haldið að gróðurhúsaáhrifin séu staðfest vísindalega. Þeim fækkar mjög sem um það deila og ég tók eftir því mér til ánægju að fornvinur minn, Lomborg hinn danski, sem ég átti í dálitlu kappi og ritdeilum við á árum áður meðan hann var enn þeirrar trúar að þetta væri allt saman bull og vitleysa og það væru engin gróðurhúsaáhrif, hefur skipt um skoðun og batnandi mönnum er best að lifa. Maður sem gaf út bækur um málið, fór mikinn og var hampað af ýmsum sem vísindamanni á því sviði að menn ættu ekki að taka of mikið mark á þessu.

Gróðurhúsaáhrifin eru í eðli sínu þannig að þau snúast um orkuríka geisla sem koma inn í lofthjúpinn og ná til yfirborðs jarðar, orkuríkir stuttbylgjugeislar breytast þar í orkuminna form og af lengri bylgjulengd og leggja af stað upp aftur en lokast inni í lofthjúpnum alveg eins og sólargeislar lokast inni undir glerþaki í gróðurhúsi. Þess vegna er nafnið til komið. Ef menn vilja frekari útlistanir á því hversu auðvelt er að skilja þetta skulu þeir hugsa um muninn á hitastigi á yfirborði jarðar á nóttunni annars vegar þegar skýjað er og hins vegar heiðríkt. Það er nákvæmlega sama sem er á ferðinni. Þess vegna verður svona kalt á nóttunni þegar himinn er heiður að orkan á svo greiða leið upp aftur en um leið og skýjahulan leggst yfir fangar hún orkuna og geymir hana í neðstu lögunum í lofthjúpnum. Það er það sem þarna er á ferðinni. Gróðurhúsalofttegundirnar eru þarna mjög áhrifamiklar og þess vegna skiptir hlutfall koldíoxíðs og fleiri slíkra tegunda í lofthjúpnum sköpum um upphitun jarðarinnar af þessum ástæðum.

Auðvitað eru margar fleiri kenningar á ferðinni og hafa verið í gegnum tíðina. Um tíma trúðu margir á hinn merka fræðimann Milankovic sem setti fram svonefndar Milankovic-kenningar sem byggðu á öðrum hugmyndum, að það væri möndulhalli jarðar, nálægð við sól, sólgos og fleiri slíkir samverkandi þættir sem hefðu þessi áhrif á hitasveiflurnar. En smátt og smátt hafa menn horfið frá því að það gæti skýrt svona stórfelldar breytingar sem eru samfelldar og stefna í eina átt. Menn hafa mælt það mjög lengi og þessar breytingar falla alveg ótrúlega — mér liggur við að segja óhugnanlega — vel saman við hækkandi magn koldíoxíðs í andrúmsloftinu eins og hlýnun jarðarinnar gerir.

Við Íslendingar eigum m.a. eina veðurathugunarstöð, í Stykkishólmi, sem er gagnmerk því að þar er til mjög löng sería af samfelldum hitamælingum sem ekki er verri en hver önnur til að bera saman við mælingar á efnum í lofthjúpnum. Ég læt þetta nægja um gróðurhúsaáhrifin. (Gripið fram í.) Ég læt það bara eftir mér að fara út í ýmsa sálma eins og aðrir ræðumenn hafa gert.

Varðandi álverin finnst mér það undarleg nálgun að það hljóti að eiga að verða framlag Íslands til að bæta loftbúskapinn að nota okkar grænu orku í álver vegna þess að það er væntanlega nákvæmlega sama í hvað hún er notuð hér á móti raforku einhvers staðar annars staðar í heiminum sem framleidd er með jarðefnaeldsneyti. Það þarf að sjálfsögðu ekki að vera bræðsla á áli. Það má nákvæmlega eins vera framleiðsla á hreinkísil eða jarðvinnsla gagna og kæling á gagnaverum borið saman við að hið sama sé gert með raforku í öðrum löndum sem framleidd er með kolum, olíu, gasi eða öðru slíku.

Enn barnalegri er sá málflutningur þegar menn hafa í huga möguleika Íslands í þessum efnum. Þýðir að ræða það sem eitthvert framlag á heimsvísu til að draga úr loftmengun hvort hér eru byggð eitt, tvö eða þrjú álver í viðbót við þau 170 sem starfrækt eru og það 1–1,5 álver sem byggt er á ári? Hvert er svigrúmið? Hvað væri hægt að gera hér jafnvel þótt við vildum tappa næstum allri óbeislaðri orku á Íslandi í álver miðað við þann forða sem við göngum almennt út frá, 20–30 teravattstundum í viðbót? Við getum kannski þrjú byggt með því að sópa saman allri orkunni sem eftir er. Það eru ósköp einfaldlega ekki nema sárafáir möguleikar orðnir eftir í landinu á því og alls ekki á einu bretti að safna saman orku í eins stórar einingar og álverið fyrir austan. Þeir eru ekki til staðar. Það er fyrst og fremst einn slíkur kostur eftir, það er Jökulsá á Fjöllum sem getur á einu bretti nokkurn veginn skaffað raforku í fullvaxið álver, og mælir einhver hér inni með því að farið verði í hana? Nei.

Veruleikinn er sá að orkuforðinn er miklu takmarkaðri en okkur er tamt að telja. Sem betur fer eru menn farnir að nálgast það í því ljósi. Ég bendi t.d. á þá stefnumörkun og umræðu sem nú á sér stað innan stærsta orkufyrirtækis landsins, Landsvirkjunar, þar sem menn draga þá mynd mjög skýrt upp fyrir sér og segja: Orkuforðinn er takmarkaður. Hann verður væntanlega, að því marki sem hann verður virkjaður á komandi áratugum, innleiddur í smærri skrefum. Við verðum að horfast í augu við að það sem skiptir úr þessu æ meira máli fyrir Íslendinga er að ná sem mestri arðsemi út úr þeirri framleiðslu sem þegar er til staðar og auðvitað því sem bætist við að því marki sem sátt verður um það.

Þá kem ég aftur að þessu hér, við þurfum auðvitað að muna eftir því að við viljum skilja eftir þróunarmöguleika fyrir okkur sjálf og komandi kynslóðir að einhverju leyti. Við sem erum nú á dögum í einhverjum áhrifastöðum á þessum örfáu árum ætlum væntanlega ekki að ráða því nákvæmlega hvernig þetta verður allt saman nýtt til langrar framtíðar. Það er auðvitað valkostur að binda restina af orkuforðanum í 2–3 álver í viðbót, en hvað svo? Hvernig ætlum við þá t.d. að umbreyta einhverjum hluta þessarar orku yfir í vistvæna orkugjafa eða orkumiðla í þágu okkar sjálfra og samgangna á komandi árum og áratugum? Ég á mér þá draumsýn að allur íslenski flotinn verði kominn á vistvænt eldsneyti innan ekki margra ára og sú draumsýn er ekki ný. Þannig lagði Bragi Árnason upp með sínar vetnisvæðingarhugmyndir að vænlegasti aðilinn til að ryðja þá braut væri flotinn vegna þess að þar er bæði rúmmál og þyngd minna vandamál en í litlum farartækjum á landi. Kannski verður það metan, kannski verður það eitthvað annað. Hver veit?

Ég held að við eigum að muna eftir þessum hlutum og allt skiptir það máli þegar við glímum við það að leggja okkar af mörkum til að takast á við þá stórkostlegu vá sem steðjar að mannkyninu vegna gróðurhúsaáhrifanna. Við eigum stórkostlega möguleika í þeim efnum og eigum að nýta þá á öllum sviðum. Við eigum að sjálfsögðu alveg sömu möguleika í vindorku og sjávarfallaorku og aðrar þjóðir. En við eigum til viðbótar sem grunn í það jarðhita okkar og vatnsorku.

Hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson talaði mikið um skattahækkanir, honum er það mjög tamt, en það á ekki sérstaklega við hér því að frumvarpið er alls ekki um það. Þetta er nokkurn veginn algerlega hlutlaus kerfisbreyting og er ekki sérstaklega ætluð til að afla ríkinu tekna og jafnvel þó að ríkið tapi einhverjum tekjum í þessu tilviki yrði ég manna glaðastur, það væri þá vegna þess að flotinn þróaðist hratt í rétta átt með því að innkaupin færðust meira og meira í umhverfisvænni bíla með lægri vörugjöldum og bifreiðagjöldum.

Það eru skattalækkanir í þessu frumvarpi og ef sú þróun vex hratt að lífræn íblöndunarefni komi t.d. í eldsneyti sem hér er verið að gera skattfrjáls tapar ríkið tekjum. Það gæti gerst á 1–2 árum að ríkið tapaði jafnmiklum tekjum og lítils háttar heildarhækkun í bifreiðagjöldum er ætlað að skila, upp á 200 millj. kr. Það má færa fyrir því góð rök að þetta sé hlutlaust og gæti jafnvel innan skamms þýtt að ríkið tapaði einhverjum tekjum en ég held að því væri þá vel varið vegna þess að það væri vegna þess að flotinn og samsetning hans hefði þróast í rétta átt tiltölulega hratt.

Ég er algerlega sammála því sem hv. þm. Mörður Árnason sagði um metanbíla. Ég er búinn að taka það fram, að ég held, að það sé mjög vænlegur kostur fyrir okkur að veðja á þá. Það gæti kannski orðið þróunin sem færi hraðast á næstu missirum og árum m.a. vegna þess að við vitum hvar vetnisvæðingaráformin miklu eru á vegi stödd, að það hefur minna gerst í þeim málum og orðið úr þeim en menn héldu um tíma þegar öll áherslan var á vetni. Það segir okkur aftur hversu varasamt það er að reyna að ákveða fyrir fram að einhver einn orkumiðill eða orkugjafi eigi að verða framtíðin frekar en annar. Við skulum leyfa þróuninni svolítið að sýna hvað er hentugast í þeim efnum (TÞH: Láta markaðinn ráða.) miðað við aðstæður okkar … (TÞH: Láta markaðinn ráða.) Tæknin á að ráða líka, hv. þingmaður, og aðstæður okkar og möguleikar. Við höfum gríðarlega möguleika til að framleiða metan, á öskuhaugunum, úr lífrænum úrgangi og jafnvel úr fjóshaugunum. Það eru bændur sem framleiða vetni úr fjóshaugunum sem þeir nota til kyndingar. Ég hef komið á slíkt bú í einu nágrannalandanna, alveg snilldarleg framleiðsla. En ég er líka sammála þeirri áherslu sem hv. þm. Mörður Árnason lagði á að stuðla þurfi að því að hægt sé að breyta núverandi bílaflota og við þurfum að gera það fýsilegt. Ég vona að ég geti sagt hv. þingmanni mjög góðar fréttir af því innan skamms, að það muni koma við sögu í einum af nokkrum bandormum sem ég hyggst flytja fyrir jólaleyfi og ætlað er að taka á því máli.

Varðandi það sem hv. þm. Gunnar Bragi Sveinsson sagði verður auðvitað ekki bæði sleppt og haldið. Við verðum að hafa það í huga. Við erum að innleiða ákveðna kerfisbreytingu í ákveðnum tilgangi til að stýra hlutum í ákveðna átt og það hefur auðvitað sín áhrif. Ég held að þau séu miklu minni og verði alls ekki svona íþyngjandi fyrir landsbyggðina eins og margir hv. þingmenn hafa lagt áherslu á, (BJJ: Jú.) m.a. vegna þess að það hróflar ekkert við þeim bílaflota sem þar er í rekstri í dag. Ef eitthvað er gera þau hann tímabundið sennilega heldur verðmætari, sé það rétt að hann samanstandi af gríðarlega stórum (Forseti hringir.) og eyðslufrekum bílum eins og hv. þingmenn tala um, sem ég held að sé svolítið gömul og úrelt mynd. Það er ekki nema að hluta til upplifun mín af bílaflotanum á landsbyggðinni (Forseti hringir.) eins og hann er samansettur í dag.