139. löggjafarþing — 33. fundur,  23. nóv. 2010.

vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl.

197. mál
[17:34]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég er einfaldlega að vekja athygli á þeirri staðreynd sem ekki verður hrakin að orkuforði Íslands er takmarkaður í alþjóðlegu samhengi. Menn hafa stundum dregið upp þá mynd að hér væru gríðarleg ósköp af orku að það hefði veruleg áhrif á heimsvísu hvernig henni verði ráðstafað. Veruleikinn er sá að orkuforðinn er takmarkaður. Heildarorkuframleiðslugeta á Íslandi, í grófum dráttum miðað við gömlu viðmiðanirnar, er u.þ.b. það sama og notað er í Hamborg, innan marka Hamborgarfylkis, það er allt og sumt. Það er heilmikið fyrir 320 þúsund manns en á heimsvísu er það ekkert mjög mikið. Stærðirnar, 15 teravött hér syðra og 5–10 fyrir norðan og nokkur í viðbót hér og þar. Já já, þetta eru engin ósköp. Við sjáum að það færi mjög fljótt ef byggð yrðu mörg, reyndar ekkert mörg því að þau gætu aldrei orðið nema 2–3 í viðbót, fullvaxin álver eins og verið er að byggja núna.

Það sem ég lagði áherslu á er að í þessum skilningi skiptir ekki máli í hvað okkar græna orka er notuð ef við lítum á það sem staðgöngu fyrir orku sem er framleidd með jarðefnaeldsneyti einhvers staðar annars staðar í heiminum. Þá kemur það út á eitt hvort hér sé brætt ál með orkunni eða framleiddur hreinkísill eða kæld niður gagnaver eða hvað það er. Auk þess leyfi ég mér að minna á mikilvægi þess að við skiljum eftir þróunarmöguleika og svigrúm fyrir okkur sjálf þannig að við göngum ekki í þetta eins og akkorð að klára þetta upp á örfáum árum.

Orkan er að verða verðmætari (Forseti hringir.) og við eigum gríðarleg tækifæri og gríðarlega möguleika ef við spilum rétt úr þeim málum á komandi árum og áratugum (Forseti hringir.) en við megum heldur ekki misstíga okkur.