139. löggjafarþing — 33. fundur,  23. nóv. 2010.

vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl.

197. mál
[17:43]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég vonast til þess að menn lendi ekki í útúrsnúningum í lokin á annars mjög málefnalegri og ágætri umræðu. Að sjálfsögðu var ég ekki að tala um það sem innlegg í málið að bílafloti landsbyggðarinnar, ef hann er í jafnríku mæli svona samansettur og þingmenn telja, innihaldi mun stærri og eyðslufrekari bíla. Það stendur einfaldlega í greinargerð frumvarpsins að skammtímaáhrifin, óveruleg sem þau væntanlega verða en einhver, á verðmæti núverandi bílaflota eru líkleg til þess að þau verðfelli minni og meðalstóru bílana en geri hina verðmætari. Það er staðan eins og hún er núna og það breytir að sjálfsögðu engu um það sem menn standa frammi fyrir gagnvart endurnýjun.

Þar bendi ég á, sem er staðreynd, að það er mikið framboð af ágætum fjórhjóladrifsbílum, jepplingum og meðalstórum jeppum sem eru afbragðsgóðir til aksturs á landsbyggðinni eins og annars staðar. Þeir eru býsna stór hluti hinna venjulegu fjölskyldubíla. Þeir ýmist lækka í verði eða haldast á óbreyttu verði, það er alveg ljóst. Svo er ekkert víst að allir telji sér henta nákvæmlega sú tegund eða sá bíll og þá er það eins og gengur.

Varðandi lögregluna er það einfaldlega þannig að bílar í eigu hins opinbera eru ekki með undanþágu. Aðeins þessi þröngu skilgreindu tilvik sem eru sjúkrabifreiðar og slökkvibifreiðar sem hér er talið upp. Þetta eru í grófum dráttum atvinnutækin og síðan einstöku tæki í sérhæfðri þjónustu. Almennt er bílafloti ríkis og sveitarfélaga sem slíkur ekkert meðhöndlaður öðruvísi en aðrir bílar í þessu samhengi.

Auðvitað má færa rök fyrir því að margir væru vel að því komnir að hafa ívilnanir en það á þá alltaf að vera i eina átt að það er ríkið sem gefur eftir tekjur. Í þessu tilviki borgar það sjálfu sér þannig að það er ekki stórhættulegt.