139. löggjafarþing — 33. fundur,  23. nóv. 2010.

virðisaukaskattur.

208. mál
[17:50]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breyting á lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt. Þetta frumvarp varðar aðallega fyrirkomulag skattlagningar svonefndrar rafrænnar þjónustu, ýmsa eftirlitsþætti og fleira í þeim dúr. Það hefur legið fyrir nokkuð lengi að við þyrftum að styrkja ýmis ákvæði virðisaukaskattslaganna og kemur þar margt til. Það eru örar breytingar á ýmsum sviðum og ekki á það síst við um svonefnda rafræna sölu eða þjónustu, sölu á vöru og þjónustu skulum við kalla það, með rafrænum hætti þar sem landamæri sem áður voru til staðar í hefðbundnum viðskiptum hverfa í raun og veru meira og minna. Þessi þróun kallar á aðlögun ýmissa skattalaga, ekki þá síst virðisaukaskattslaganna, í takt við þessar nýjar söluaðferðir og aukin viðskipti milli landa á þessu formi. Þetta á bæði við um skilgreiningar og efnistúlkun einstakra ákvæða í lögunum og ekki síður um alla skattframkvæmd, þ.e. hvernig skatteftirliti er hagað, skattrannsóknir og annað í þeim dúr. Vinna við þessa endurskoðun er þegar hafin og stendur yfir, og það má líta á þessar breytingar sem hér er að finna í frumvarpi sem fyrsta áfangann í því verki. Eins og kunnugt er er stór og breiður starfshópur að störfum með þátttöku allra þingflokka og hagsmunaaðila í bakhópi sem vinnur að heildarúttekt á skattkerfinu.

Tilgangi þessa frumvarps má í grófum dráttum skipta í þrennt. Í fyrsta lagi er tillaga sem varðar rafræna þjónustusölu og skilgreiningu á henni. Þar hafa risið upp álitamál á undanförnum missirum, m.a. í tengslum við uppbyggingu gagnavera hér á landi, en haft hefur verið náið samráð við hagsmunaaðila um úrlausn þessa máls. Í öðru lagi eru tillögur um aukið og hert eftirlit með virðisaukaskattsskyldum aðilum til að draga úr skattundandrætti og skattsvikum sem hætta er á að aukist við efnahagsaðstæður eins og nú ríkja og um leið er meiningin að sjálfsögðu að bæta skil á skattinum. Í þriðja lagi eru ýmsar minni breytingar eins og nánar verður lýst hér á eftir.

Varðandi rafræna þjónustu er í frumvarpinu lögð til breyting á lögunum til að skilgreina betur hvað telst vera útflutningur á rafrænt afhentri þjónustu og telst þar með ekki til skattskyldrar veltu. Sem fyrr segir hefur á síðustu árum verið veruleg þróun í gangi á sviði rafrænna viðskipta og rafrænnar þjónustusölu, og ný og áður óþekkt vandamál hafa komið í ljós vegna sölu á veraldarvefnum sem nauðsynlegt er að bregðast við. Vankantar á ákvæðum núgildandi laga að þessu leyti hafa í einhverjum tilvikum leitt til tvískattlagningar eða jafnvel engrar skattlagningar á vissum sviðum rafrænnar þjónustusölu. Með breytingunni verður tryggt að tiltekin rafrænt afhent þjónusta mun ekki teljast til skattskyldrar veltu þegar þjónustan er keypt af erlendum aðila sem ekki stundar starfsemi hér á landi og jafnframt verður tryggt að kaup á sömu þjónustu verði virðisaukaskattsskyld hér á landi þegar hún er nýtt hérlendis. Breytingar á þessu gera m.a. kleift að afmarka betur hvað telst til afhendingar á rafrænni þjónustu hjá gagnaverum hér á landi. Annað álitamál hefur komið upp í tengslum við starfsemi innlendra gagnavera en það varðar innflutning á netþjónum sem eru í eigu erlendra aðila sem ekki eru skráðir hér með starfsstöð, a.m.k. í byrjun eða hvernig sem það nú er, og vilja fá undanþágu frá því að greiða hér virðisaukaskatt eða önnur gjöld af innflutningi búnaðarins. Þetta mál er torsóttara þar sem við eigum það ekki við okkur ein hvernig við göngum frá reglum í þessum efnum. Það er til frekari vinnslu í fjármálaráðuneytinu, m.a. í samstarfi við Eftirlitsstofnun EFTA, ESA, og fyrirheit um að allt verði gert sem hægt er til að jafna samkeppnisstöðu starfseminnar hér miðað við það sem gerist í Evrópu er að sjálfsögðu í fullu gildi og verður reynt eftir því sem okkur er tækt og við höfum í okkar valdi og fáum samþykkt af þar til bærum aðilum að mæta óskum manna um hagstætt skattalegt umhverfi í því sambandi, a.m.k. á einhverju uppbyggingar- eða þróunarskeiði þessarar starfsemi.

Varðandi eftirlit í virðisaukaskattskerfinu og áætlanir, eða hvernig fylgst er með áætlunum sem þar eru gerðar, eru í frumvarpinu einnig lagðar til breytingar í þá átt að bæta skil og eftirlit með greiðslu virðisaukaskatts. Áætluðum aðilum á virðisaukaskattsskrá hefur fjölgað verulega síðustu ár og hafa úrræði skattstjóra til að bregðast við því verið afar takmörkuð. Við því er reynt að bregðast í þessu frumvarpi. Um það bil 32 þús. aðilar eru á grunnskrá virðisaukaskattsskrár og sæta um 20% þeirra áætlun við frumálagningu. Nokkur hluti þeirra skilar þó skýrslu síðar, en oft án greiðslu. Þær breytingar sem hér eru lagðar til stuðla að því að skilvirkara skatteftirlit komi til sögunnar og koma í veg fyrir að aðilar sæti ítrekað áætlunum. Meðal annars er lagt til að ríkisskattstjóri geti synjað aðila um skráningu á virðisaukaskattsskrá hafi opinber gjöld hans verið áætluð á næstliðnum þremur tekjuárum á undan því ári sem sótt er um skráningu. Þá er lagt til að sá aðili sem skráður er að nýju á virðisaukaskattsskrá eftir að hafa staðið skil á virðisaukaskattinum skuli nota hvern almanaksmánuð sem uppgjörstímabil í a.m.k. tvö ár eftir endurskráningu. Fleiri tillögur í þessa veru er einnig að finna í frumvarpinu.

Þá eru lagðar til nokkrar breytingar á fjárhæðarmörkum, frestum og skilgreiningum. Þannig er lagt til að fjárhæðarmörk þeirra sem undanþegnir eru skattskyldri veltu hækki úr 500 þús. kr. í 1 millj. kr. og að heimild til að miða við lengra uppgjörstímabil verði 3 millj. kr. í stað 1,4 millj. kr. nú. Þessar breytingar eru að sjálfsögðu til rýmkunar. Enn fremur er lagt til að frestur til endurgreiðslu virðisaukaskatts verði lengdur úr 15 dögum í 21 dag og að endurgreiðsla virðisaukaskatts vegna vinnu manna við endurbætur og viðhald skuli fara fram í síðasta lagi 30 dögum eftir að ríkisskattstjóra berst erindi, í stað 14.

Jafnframt er lagt til að endurgreiðsla virðisaukaskatts af sölu á heitu vatni og rafmagni til hitunar húsa og laugarvatns verði felld niður. Ljóst hefur verið í nokkurn tíma að endurskoða þyrfti endurgreiðslur þessar þar sem veitur hafa breyst, þær hafa verið sameinaðar og nýjar stofnaðar. Þar sem ljóst er að upphaflegu forsendurnar fyrir þessu endurgreiðslukerfi eru brostnar er lagt til að endurgreiðsluheimild þessi verði felld niður og sala á heitu vatni og rafhitun á landsbyggðinni verði styrkt eftir öðrum leiðum samkvæmt nánari ákvörðun iðnaðarráðuneytisins sem hefur forræði á málefnum veitna.

Að lokum er lagt til að framlengd verði um eitt ár, þ.e. til ársloka 2011, heimild til endurgreiðslu virðisaukaskatts vegna kaupa eða leigu hópferðabifreiða til þeirra sem hafa leyfi til fólksflutninga í atvinnuskyni. Sömuleiðis verði framlengd heimild til að endurgreiða 100% virðisaukaskatt til byggjenda og eigenda íbúðarhúsnæðis og frístundahúsnæðis, auk húsnæðis sem er alfarið í eigu sveitarfélaga eða stofnana og félaga sem alfarið eru í eigu sveitarfélaga. Talið hefur verið að þessi endurgreiðsla hafi reynst mjög vel, haft verulega jákvæð áhrif til aukinnar atvinnu og jafnframt þjónað þeim tilgangi að koma þessum viðskiptum öllum saman betur upp á yfirborðið. Aðilum sem hafa nýtt sér þessa endurgreiðslu hefur farið fjölgandi og almennt er ánægja og samstaða um að þessi aðgerð hafi heppnast vel. Henni hefur verið fylgt eftir, m.a. með mjög öflugu samstarfi fjölmargra aðila undir kjörorðunum „Allir vinna“ og hér er sem sagt, frú forseti, lagt til að þetta fyrirkomulag verði framlengt um ár í viðbót. Það eru engin fyrirheit gefin um að þetta verði til frambúðar svona og einmitt mikilvægt að menn gangi út frá því að nota tækifærið á meðan þetta er við lýði, sem og þær skattaívilnanir sem tímabundið voru tengdar þessu, og að einstaklingar sem kaupa þjónustu af þessu tagi geti nýtt sér í formi tiltekins skattfrádráttar.

Þetta eru meginatriði frumvarpsins, frú forseti, og ég legg til að því verði vísað til hv. efnahags- og skattanefndar og til 2. umr. að lokinni þessari.