139. löggjafarþing — 33. fundur,  23. nóv. 2010.

virðisaukaskattur.

208. mál
[18:02]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég bið forláts á því ef ég hef orðið til þess að hæstv. fjármálaráðherra þurfti að endurtaka sig. Það er rétt, ég hef eflaust verið á hlaupum á milli húsa.

Fyrst varðandi fjárfestingarsamninginn og skoðun ESA. Hvaða atriði eru það sem ESA er að reka hornin í? Er hæstv. ráðherra kunnugt um hvað veldur því að þeir taka samninginn til rannsóknar? Hefur hæstv. ráðherra einhverjar upplýsingar um þann tíma sem sú rannsókn gæti tekið? Eins og hæstv. ráðherra veit eru það ekki bara við Suðurnesjamenn heldur fleiri sem hafa beðið í ofvæni eftir því að þessar framkvæmdir geti farið af stað aftur.

Einnig vildi ég spyrja varðandi hitt atriðið sem enn er ólokið hvort væri rétt skilið hjá mér að það atriði einskorðaðist ekki við Ísland. Það eru fleiri lönd, það eru fyrirmyndir í öðrum löndum um hvernig fara skuli með slík álitaatriði. Danmörk og Bretland hafa verið nefnd í mín eyru sem mögulegar fyrirmyndir. Er ekki hægt að líta til þeirra til að finna leið til að leysa þetta? Er þá einhver möguleiki á að eftirlitsstofnunin mundi ekki reka hornin í það fyrirkomulag?

En fyrst og fremst, hvað er það sem veldur því að fjárfestingarsamningurinn er til skoðunar?