139. löggjafarþing — 33. fundur,  23. nóv. 2010.

virðisaukaskattur.

208. mál
[18:24]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það væri enginn maður fegnari en ég ef löngu væri búið að því. Vandinn er sá að þetta er býsna snúið eins og komið hefur á daginn. Búið er að leggja óhemjuvinnu í að reyna að finna færar leiðir og fá það samþykkt. Samskipti út af því máli eru í gangi eins og ég kom inn á og við reynum okkar besta að fá botn í það eins fljótt og hægt er. Alla vega er á ferðinni lausn á öðrum þætti málsins og vonandi tekst að finna ásættanlega niðurstöðu varðandi hitt.

Við í fjármálaráðuneytinu og skattyfirvöld bendum auðvitað gjarnan á að í boði er sáraeinföld lausn í málinu. Um leið og viðkomandi aðili er sáttur við að verða til hér sem aðili með skattnúmer og starfsstöð þá leysist málið. Þá gilda venjulegar reglur um innskatt og útskatt og ekkert vandamál. (TÞH: En hann er ekki að selja.) Það er vissulega út af fyrir sig rétt en um leið og aðilinn er til staðar hér eins og hver annar slíkur leysir það þáttinn varðandi innflutning og útflutning á þjónustunni.

Við höfum bundið vonir við að málið gæti að hluta til verið leyst þannig að þegar starfsemin hér væri búin að sanna sig og viðkomandi aðilar, sem kannski líta á það í byrjun sem tilraunaverkefni að koma hér inn, væru orðnir ánægðir með þjónustuna og sáttir við að vera með viðskipti hér til frambúðar, þá ætti ekki að vera nein hindrun í vegi fyrir þá að leysa málið þannig. En gott og vel, ef þetta er þrándur í götu í byrjun og menn vilja láta á það reyna hvort það sé hagstætt fyrirkomulag að láta hýsa búnað og þjónustu þá gætu þeir gert það á einhverju þróunaruppbyggingartímabil og/eða að hægt væri að hafa þetta miðað við tiltekin skilgreind umsvif, eins og ég lét mér detta í hug. Meðan á uppbyggingartíma stæði og umsvifin væru undir einhverju tilteknu lágmarki þá væru menn undanþegnir en ef þeir færu upp fyrir það og starfsemin væri orðin umfangsmeiri og búin að standa í einhver ár, þá tæki við nýtt framtíðarfyrirkomulag. (Forseti hringir.) Það er hægt að hugsa sér ýmsa áfanga í þeim efnum og ýmis skref sem má reyna að feta en að lokum þurfum við að fá það fyrirkomulag samþykkt.