139. löggjafarþing — 33. fundur,  23. nóv. 2010.

staðgreiðsla opinberra gjalda o.fl.

210. mál
[18:31]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér frumvarp til laga sem veitir heimild til kyrrsetningar eigna. Eins og hæstv. fjármálaráðherra gat um er þetta gamall kunningi, við höfum farið yfir þetta mál hér áður og grunnurinn að þessu varð að lögum í vor. Þá hélt ég ræðu og talaði því máli í þinginu að mér þættu þetta of víðtækar heimildir og ekki nógu nákvæmt í hvaða tilfellum væri hægt að beita þeim. Ég benti á reynslu af svipuðum lögum sem sett voru í Bandaríkjunum í kjölfar hrunsins mikla þar á 4. áratugnum. Reynsla Bandaríkjamanna varð sú að lögin virkuðu ágætlega til að byrja með en þau færðu bandaríska skattinum mjög mikil völd eins og þessi lög eru í raun og veru að gera. Þegar hið svarta tímabil í sögu Bandaríkjanna, McCarthy-tímabilið, kom var á grunni laga sem eru samkynja þessum farið að misbeita bandaríska skattinum á mjög óhuggulegan og ljótan hátt vegna þess að völdin voru úr samræmi við tilefnið. Það var brosað hálfpartinn í kampinn hérna í vor yfir þessari ræðu minni og umkvörtunarefni og í nefndinni var sagt: Ja, íslenskir embættismenn eru svo vandaðir að þetta mundi aldrei gerast hér. En maður skyldi aldrei segja aldrei.

Fyrsta kyrrsetningarmálið sem síðan var reyndar dæmt ólöglegt vegna þess að það vantaði tilvísanir í önnur lög og annað slíkt, sem við erum að breyta hér núna, snerist um stjórnarformann í fyrirtæki sem starfaði á alþjóðamarkaði. Þetta fyrirtæki átti dótturfélög í mörgum löndum og var með útibú í mörgum löndum og annað slíkt. Það kom upp deila milli skattsins og fyrirtækisins um virðisauka, hvernig þjónusta sem var seld á milli fyrirtækja innan samstæðunnar hafði verið meðhöndluð. Það skipti engum togum að nýju lögin voru notuð til að kyrrsetja eignir þessa manns sem var stjórnarformaður í fyrirtækinu. Hann var reyndar ekkert mjög vel inni í þessu vegna þess að þetta var stórfyrirtæki og eins og gengur og gerist voru þar sérfræðingar og svo kemur upp deila við skattinn og þá ganga á milli kærur fram og til baka þangað til málið er leyst.

Það var farið fram með þetta sem eitthvert stórkostlegt sakamál, allar eigur mannsins frystar og eftir þrábeiðni lögfræðings hans var hægt að semja við tollinn um að skilja eftir 5 millj. kr. handa fjölskyldunni til að lifa á, maðurinn atvinnulaus og annað slíkt. Þarna voru lögin notuð algjörlega úr samræmi við það sem löggjafinn hafði hugsað sér og fyrir það getur enginn þrætt. Ég var einn af þeim sem fjallaði mjög ítarlega um þessi lög og þetta var ekki hugsunin með þeim.

Þær afleiðingar sem komu upp við að þessu hafði verið beitt á þennan hátt voru að þriðji aðili varð fyrir miklum skaða út af þessu. Hvað á ég við með þriðja aðila? Jú, þessi maður var giftur og átti börn og þessi gjörð bitnaði beint á þriðja aðila, á heimilishaldi mannsins.

Ég varaði líka við því í vor þegar þessi lög voru til umfjöllunar að þetta gæti orðið til þess að þriðji aðili yrði fyrir tjóni ef þessum lögum yrði beitt. Það varð samt þannig. Jafnframt væri hægt að hugsa sér dæmi þar sem þessum lögum sem hér eru væri beitt á eitthvert fyrirtæki. Það mundi leiða til þess að fyrirtækið yrði gjaldþrota og í framhaldinu til þess að það gæti ekki staðið við kröfur sínar gagnvart öðrum fyrirtækjum sem jafnvel yrðu þá sjálf gjaldþrota. Manni verður hugsað til skaðabótaábyrgðar í þessu.

Ég tel að hér sé farið geyst fram en geri mér samt grein fyrir tilefninu. Ég er þeirrar skoðunar að það sé ekki gott í andrúmslofti eins og ríkir núna að færa embættismönnum og opinberum aðilum miklar valdheimildir sem viðbrögð við fyrirsögnum í dagblöðum. Það er það sem ég tel að sé verið að gera hér.