139. löggjafarþing — 33. fundur,  23. nóv. 2010.

verðbréfaviðskipti.

218. mál
[18:44]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breyting á lögum um verðbréfaviðskipti, nr. 108/2007, með síðari breytingum. Tildrög þessa frumvarps eru þau að vorið 2009 voru samþykktar breytingar á lögunum um verðbréfaviðskipti sem gerðu þeim sem áttu yfir 30% atkvæðisréttar í skráðum félögum kleift að selja sig niður í þau mörk eða gera öðrum hluthöfum yfirtökutilboð.

Höfðu hluthafar til 31. mars á næsta ári til að selja sig niður fyrir greind mörk. Tilgangur breytinganna var að ein og sama regla gilti um yfirtökumörk og tengsl aðila eftir þá breytingu að yfirtökuskylda var farin niður í 30% og um leið var fallið frá þeirri leið sem fram að þessu hafði verið farin við sambærilega lagasetningu, þ.e. að setja ákvæði til bráðabirgða sem gerðu þeim sem áttu yfir nýjum yfirtökumörkum eða féllu undir nýjar tengslareglur kleift að viðhalda eignarhluta sínum eða tengslum þrátt fyrir breytingu á reglum laganna.

Kauphöllin hefur vakið athygli efnahags- og viðskiptaráðuneytisins á því að hún telji verulega hættu á því að breytingar þær sem samþykktar voru vorið 2009 skaði verðbréfamarkaðinn og að veruleg hætta sé á því að félög taki hlutabréf sín úr viðskiptum hér á landi ef ákvæðið kemur að fullu til framkvæmda. Frá því að frumvarp þetta var kynnt og lagt fram hefur komið á daginn að flaggskip verðbréfamarkaðarins, Össur hf., hefur þegar tilkynnt um afskráningu úr Kauphöll Íslands. Ástæðan fyrir því er að vísu flóknari og fjölþættari atriði sem liggja þar að baki en ljóst er að það er ekki til farsældar fallið að hafa í Kauphöll Íslands annars konar reglur í grundvallaratriðum hvað þetta varðar en eru í gildi í norrænum nágrannalöndum okkar. Er því lagt til í frumvarpi þessu að umrædd regla verði felld út og að þeim sem eiga yfir lögbundnum yfirtökumörkum í eignarhlut verði gert kleift að halda þeim hlut áfram, svo fremi að þeir bæti ekki við sig.

Virðulegi forseti. Að lokinni þessari umræðu legg ég til að frumvarpi þessu verði vísað til viðskiptanefndar.