139. löggjafarþing — 33. fundur,  23. nóv. 2010.

innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta.

237. mál
[18:50]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta sem er efnislega samhljóða frumvarpi um sama efni sem lagt var fram af forvera mínum á síðasta þingi en dagaði uppi.

Núgildandi lög um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta, nr. 98/1999, tóku gildi 1. janúar 2000. Markmið laganna er að veita innstæðueigendum í viðskiptabönkum og sparisjóðum og viðskiptavinum fyrirtækja sem nýta sér heimildir laga til að stunda viðskipti með verðbréf lágmarksvernd gegn greiðsluerfiðleikum viðkomandi fyrirtækis í samræmi við ákvæði laganna. Með lögunum voru innleiddar tvær tilskipanir Evrópusambandsins, annars vegar um tryggingakerfi fyrir fjárfesta nr. 97/9/EB og hins vegar um innlánatryggingakerfi nr. 94/19/EB.

Með frumvarpi því sem varð að lögum, nr. 98/1999, var búinn til einn sjóður, Tryggingarsjóður innstæðueigenda og fjárfesta, úr Tryggingarsjóði viðskiptabanka og innstæðudeild Tryggingarsjóðs sparisjóða, jafnframt var inn í hann fellt nýtt tryggingakerfi fyrir fjárfesta.

Eftir hrun þriggja stærstu viðskiptabanka landsins haustið 2008 þykir sýnt að breyta þarf gildandi lögum um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta enda hafa gríðarlegar ábyrgðir fallið á Tryggingarsjóð innstæðueigenda og fjárfesta, einkum vegna starfsemi erlendra útibúa Landsbankans í Bretlandi og Hollandi vegna Icesave-reikninganna.

Frumvarpið skiptist í átta kafla og eru almenn ákvæði í I. kafla. Þar er farin sú leið að skýra merkingu tiltekinna orða sem tíðum koma fyrir í frumvarpinu. Í II. kafla er einkum að finna greinar sem varða stofnun, skipulag og starfsemi Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta og í III. kafla frumvarpsins eru greinar sem varða vernd innstæðueigenda, í IV. kafla eru greinar sem varða vernd fjárfesta. Í III. kafla frumvarpsins er gert ráð fyrir tveimur innstæðudeildum, A-deild og B-deild.

A-deild er ætla að vera hin nýja innstæðudeild er taki til starfa um næstu áramót verði frumvarpið að lögum. Frá þeim tíma skulu innlánsstofnanir greiða iðgjald til A-deildar. B-deild er ætlað að starfa samkvæmt gildandi lögum, að undanskildum nánar tilteknum ákvæðum. Verði frumvarpið að lögum skal B-deild lögð niður þegar greiðslu skuldbindinga hennar er lokið vegna ábyrgða sem fallið hafa á innstæðudeild sjóðsins fyrir gildistöku laganna.

Virðulegi forseti. Sem fyrr segir er lagt til að hin nýja innstæðudeild, A-deild, taki við iðgjaldi frá innlánsstofnunum frá 1. janúar 2011. Lagt er til að heildarfjárhæð tryggðra greiðslna hvers einstaks innstæðueiganda úr A-deild skuli nema heildarfjárhæð tryggðra innstæðna hans í hlutaðeigandi innlánsstofnun, þó aldrei hærri fjárhæð en sem nemi jafnvirði 100 þús. evra og að sjóðurinn verði ekki krafinn um frekari greiðslu. Þannig er í frumvarpinu lögð til talsverð hækkun lágmarkstryggingaverndar innstæðueigenda frá því sem kveðið er á um í núgildandi lögum, en samkvæmt gildandi lögum er lágmarkstryggingaverndin rúmar 20 þús. evrur en ekkert hámark er hins vegar á verndinni. Þannig er í frumvarpinu fallið frá því að kveða á um lágmarkstryggingu og í staðinn kveðið á um hámarkstryggingu.

Samkvæmt núgildandi lögum er iðgjald til tryggingarsjóðs greitt eftir á vegna nýliðins árs. Fundin er staða tryggðra innstæðna í viðskiptabönkum og sparisjóðum annars vegar við upphaf árs og hins vegar við lok árs en síðan tekið meðaltal. Heildareign innstæðudeildar sjóðsins skal að lágmarki nema 1% af meðaltalinu. Þetta fyrirkomulag hefur þann ókost að þegar mikil aukning verður á innstæðum á skömmum tíma er ekkert iðgjald greitt af aukningunni fyrr en löngu síðar. Þannig má segja að áhættan sé tryggð án þess að iðgjald hafi verið greitt. Ekki síst vegna þessa er í frumvarpinu gerð tillaga um verulega breytt fyrirkomulag hvað varðar innheimtu iðgjalds og að innlánsstofnanir greiði viðbótariðgjald vegna tiltekinna áhættuþátta. Lögð er til hækkun fastaiðgjalds úr 0,15% á ársgrundvelli í 1% á ársgrundvelli og að sjóðurinn skuli ná 4% af heildartryggðum innstæðum áður en heimilt verður að veita afslátt af iðgjaldi. Lagt er til að iðgjald greiðist ársfjórðungslega og að það miðist við bókfærða stöðu tryggðra innstæðna í lok næstliðins ársfjórðungs fyrir gjalddaga. Þá skulu innlánsstofnanir greiða tvenns konar viðbótariðgjöld eftir atvikum. Annars vegar er um að ræða iðgjald sem reiknast út frá markaðshlutdeild þeirra. Fari markaðshlutdeild umfram 10% reiknast iðgjald sem fer stighækkandi eftir hærri markaðshlutdeild. Hins vegar er um að ræða iðgjald sem reiknast á grundvelli áhættustuðuls sem Fjármálaeftirlitið gefur hverri einstakri innlánsstofnun. Með tillögu um breytingar í þessa veru er markmiðið að iðgjöld til sjóðsins endurspegli sem best þá áhættu sem til staðar er hverju sinni. Enn fremur er gerð tillaga um verulega hækkun tryggingarfjárhæðar og greiðslufyrirkomulagi við útgreiðslu úr sjóðnum breytt. Með þeim breytingum eru innleidd ákvæði tilskipunar ESB, nr. 09/14/EB, eins og áður segir.

Sá þriggja mánaða frestur sem tilskipun nr. 94/19/EB heimilar til útgreiðslu úr tryggingakerfinu er að flestra mati of rúmur, auk þess að stríða bæði gegn hagsmunum innstæðueigenda og þörfinni á að viðhalda trausti á fjármálakerfinu. Er tímafrestur þessi nú fastsettur við 20 daga. Eins eru styttir tímafrestir sem eftirlitsaðilar hafa til að ákveða hvort reyni á greiðsluskyldu tryggingakerfisins.

Lagt er til að nýttar verði heimildir tilskipunar Evrópusambandsins til að undanskilja innstæður tiltekinna innstæðueigenda tryggingavernd umfram það sem er í gildandi lögum. Því er í frumvarpinu tiltekið að ákveðnar innstæður njóti ekki verndar. Sama á við um heimildir til að takmarka tryggingavernd fjárfesta vegna tiltekinna verðbréfa og reiðufjár.

Sérstaka grein er að finna í frumvarpinu og bráðabirgðaákvæði með því um svokallaða B-deild. Tiltekin ákvæði gildandi laga gilda áfram um þá deild vegna ábyrgða sem fallið hafa á innstæðudeild sjóðsins.

Meðal þeirra atriða sem mikið voru rædd í viðskiptanefnd á síðasta þingi varðandi þetta mál var það álitamál hvernig túlka bæri mögulega ríkisábyrgð á tryggingarsjóðnum. Í frumvarpinu er farin sú leið að kveða skýrt á um að sjóðurinn njóti ekki ríkisábyrgðar enda er það sjálfgefið í ljósi þess að hann er ekki tilgreindur í lögum um ríkisábyrgðir.

Virðulegi forseti. Að teknu tilliti til þeirrar auknu tryggingaverndar sem gert er ráð fyrir í frumvarpinu, mikillar hækkunar iðgjaldsgreiðslna í tryggingarsjóð sem aftur flýtir sjóðsmyndun hans og að mun hraðar hefur gengið að endurskipuleggja fjármálamarkaðinn en bjartsýnustu menn þorðu að vona er þess að vænta að ekki verði talin þörf fyrir aðrar innstæðutryggingar eða ábyrgðir þegar til lengri tíma er litið. Þrátt fyrir það vil ég ítreka að yfirlýsing ríkisstjórnarinnar frá því í október 2008, sem ítrekuð var í febrúar 2009 um að innstæður í innlendum innlánsstofnunum séu tryggðar, stendur óhögguð og áður en viljayfirlýsingin verður dregin til baka mun verða gefinn rúmur aðlögunartími.

Virðulegi forseti. Ég legg til að máli þessu verði að umræðu lokinni vísað til 2. umr. og hv. viðskiptanefndar.