139. löggjafarþing — 33. fundur,  23. nóv. 2010.

innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta.

237. mál
[18:58]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir kynningu hans. Hér er um að ræða gamlan draug sem við höfum oft rætt og tekist á um í þingsölum. Ég hef farið yfir og rifjað upp helstu þætti í frumvarpinu og gengið það ágætlega þar sem oft er búið að fara yfir þetta. Í grófum dráttum er um að ræða evrópskt módel af innstæðutryggingarkerfi sem hefur ekki virkað mjög vel. Ég held að ef einhver Íslendingur heldur því fram að evrópska innstæðutryggingarkerfið hafi gengið vel hafi sá hinn sami verið væntanlega einhvers annars staðar en á Íslandi og fengið lítið af fregnum frá Íslandi á undanförnum missirum. Þetta hefur verið fullkominn skaðvaldur fyrir íslenskt samfélag og sér enn ekki fyrir endann á því, eins og við þekkjum. Menn hefðu betur farið vel yfir þetta á sínum tíma þegar kerfið var innleitt. Þá hefðum við kannski getað komið í veg fyrir þær milliríkjadeilur sem við erum í núna, þó er það ekki sjálfgefið.

Við fórum fram á það við fyrrverandi hæstv. ráðherra að hann mundi bera upp við evrópska kollega sína hina séríslensku stöðu sem Ísland er í. Þetta kerfi er augljóslega hannað fyrir miklu stærri lönd með miklu fleiri fjármálastofnanir. Við erum með þrjár stofnanir, sem verða kannski tvær, sem gerir að verkum að við náum aldrei þeirri sjóðsöfnun sem þarf. Hér er um að ræða falska vernd. Sem dæmi þá held ég að það taki 96 ár að safna upp í þá upphæð sem þarf bara til að mæta afföllum frá einum banka ef hann rúllar.

Ég vildi spyrja hæstv. ráðherra hvernig þetta hafi gengið, hversu margir fundir hafi verið haldnir og við hverja hefur verið talað (Forseti hringir.) í framkvæmdastjórn Evrópusambandsins til að útskýra sjónarmið okkar Íslendinga. Það er mjög erfitt fyrir okkur að taka kerfið upp eins og það liggur fyrir.