139. löggjafarþing — 33. fundur,  23. nóv. 2010.

innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta.

237. mál
[19:04]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hef ekki rætt þetta mál við fulltrúa framkvæmdastjórnarinnar frá því að ég tók við embætti þannig að ég get ekki svarað þeirri spurningu öðruvísi en að ég hef ekki átt kost á því. Fyrir dyrum stendur heimsókn til Brussel en vegna ýmissa anna hefur ekki gefist færi til þess enn þá. Ég veit að forveri minn fundaði á vormánuðum með kollegum sínum í framkvæmdastjórninni og ég geri ráð fyrir því að hann hafi hreyft þessu máli þar. Á vettvangi framkvæmdastjórnarinnar er unnið að þessu máli og fyrir liggur, eins og kemur fram í greinargerð með frumvarpinu, skýrsla framkvæmdastjórnarinnar um viðbrögð við þeim áföllum sem innstæðutryggingarkerfið hefur orðið fyrir. Meðal þess sem þar er boðað er skýrsla um samevrópskt tryggingakerfi sem skila á á árinu 2014.

Sú afstaða framkvæmdastjórnarinnar liggur fyrir opinberlega en ég get fullvissað hv. þingmann um að ekki mun standa á mér að halda fram þessum sjónarmiðum þegar mér gefst færi til fundarhalda með kollegum úr framkvæmdastjórninni.