139. löggjafarþing — 33. fundur,  23. nóv. 2010.

innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta.

237. mál
[19:06]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegur forseti. Eins og ég nefndi áðan er hér á ferðinni mál sem við höfum rætt mjög mikið, bæði í þingsal og ekki síður í hv. viðskiptanefnd. Í sinni einföldustu mynd er málið svona: Hugmyndin á bak við innstæðutryggingarkerfi gengur út á að þetta er tryggingakerfi eins og nafnið gefur til kynna sem þýðir að allir greiða iðgjald. Ef tjón verður er greitt út úr tryggingarsjóðnum. Forsendurnar miðast við að í kerfinu séu margir bankar og/eða sparisjóðir og innlánsstofnanir og ef það kemur síðan upp á að einn banki af þúsund, segjum það, fari á höfuðið á ári, á innstæðutryggingarkerfið að þola það mjög vel. Hugmyndin á bak við þessa dreifðu áhætta er að tryggja að fólk geti verið öruggt með innstæður sínar. Í ofanálag gengur þetta þvert yfir landamæri vegna þess að við erum á samevrópska efnahagssvæðinu. Þetta er grunnhugsunin í þessu. Hins vegar er það svo að hvert ríki á ekki að gera annað en að setja þetta upp. En forustuþjóðir Evrópusambandsins gerðu síðan kröfu um að við mundum borga það tjón sem varð þegar íslenskir bankar, nokkurn veginn allir, fóru á hausinn í einu vetfangi. Kerfið gerir ekki ráð fyrir því. Það gerir ekki ráð fyrir bankahruni. Það gerir heldur ekki ráð fyrir því að lítið land sé með stórt bankakerfi og innstæður út um alla álfuna.

Þetta vitum við núna. Þess vegna eru allir sammála um það, þegar við setjumst yfir þetta, að menn eigi að reyna að lágmarka skaðann af því. Við höfum hins vegar á réttu að standa í deilunum við Evrópusambandið um hvort við eigum að ábyrgjast þessar greiðslur, það er enginn vafi á því í mínum huga. Það breytir því ekki að ekki hefur verið hugsað fyrir þessu og ekki einu sinni hugsað almennilega fyrir því hvernig taka á á deilumálum eins og þeim sem komið hafa upp.

Við getum verið þokkalega sátt um að skoða sérstaklega hvernig íslenska bankakerfið mun þróast og reyna að takmarka áhættuna ef íslenskir bankar munu einhvern tímann seinna fara í útrás eins og það er kallað — væntanlega verður komið eitthvert annað hugtak yfir það þá — með því að innstæðutryggingarsjóðurinn muni ekki bera ríkisábyrgð. Menn virðast vera sammála um það núna og eru tilbúnir til að setja það inn í frumvarpið en hæstv. ríkisstjórn var ekki inni á því áður. Það breytir hins vegar ekki þeirri staðreynd að ef við ætlum að setja upp innstæðutryggingarsjóð sem á að vera trúverðugur og geta mætt áföllum sem gætu orðið á Íslandi er þetta ekki að gera sig eins og þetta er lagt upp hér.

Menn geta tekið þann pól í hæðina að segja: Þetta gerist ekki aftur, bankarnir fara ekki aftur á hausinn. Það má alveg nálgast þetta þannig en ég hef lært það á minni ævi að ýmislegt getur gerst sem menn töldu að gæti bara ekki gerst. Það gerðist nú t.d. á Íslandi fyrir tveimur árum. Og mér finnst það vera ábyrgðarhluti að fara núna með tryggingavernd úr 20 þús. evrum í 100 þús. evrur og setja upp innstæðutryggingarsjóð sem við vitum að mun ekki geta veitt viðunandi vernd fyrir þá sem setja innstæður í banka nema á mjög löngum tíma, og þá er ég að tala um á tæplega 100 árum.

Það kom fram í svari hæstv. ráðherra við spurningu minni að hann hefur ekki rætt þetta við forsvarsmenn Evrópusambandsins. Ef fyrirrennari hans hefur gert það hefur því a.m.k. ekki verið komið áleiðis eða ekki hafa fundist neinar lausnir hvað þetta varðar. En ástæðan fyrir því að ég spurði hæstv. ráðherra um þetta er að við getum bara ekki látið eins og málið sé ekki til. Það er ekki hægt að ætlast til að við uppfyllum einhverja tilskipun Evrópusambandsins sem gengur ekki upp miðað við íslenskar aðstæður. Við verðum að láta á það reyna, við fáum þá í versta falli bara nei frá Evrópusambandinu. Við getum augljóslega bent á skaðann af því innstæðutryggingarkerfi sem var til staðar áður og var þó bara með 20 þús. evrur, og við getum bent á að þetta fyrirkomulag þarfnast nánari skoðunar fyrir Ísland.

Ég held að menn hafi nú rætt minni hagsmuni við forsvarsmenn Evrópusambandsins. Það er auðvitað mjög mikið hagsmunamál að lækka lyfjaverð á Íslandi en ég vísa til þess að ég ræddi við forustumenn Evrópusambandsins, tvo framkvæmdastjóra nánar tiltekið, um tilskipun Evrópusambandsins sem leiddi til hækkunar á lyfjaverði á Íslandi. Niðurstaðan varð sú að við fundum ákveðna lausn til að lækka lyfjaverð og gekk það eftir. Mér finnst því lágmarkskrafa að hæstv. ríkisstjórn geri hvað hún getur til að gæta hagsmuna Íslendinga í þessu stóra hagsmunamáli.

Eitt sem er algjörlega öruggt er að innstæðutryggingarkerfi er ekki hugsað þannig að þrír stórir bankar hafi 90% innstæðna. Hæstv. ráðherra minntist á samevrópskt tryggingakerfi og margir hafa rætt að kjörið væri að taka þetta á stærri vettvangi og það kemur fram í athugasemdum við frumvarpið. Hæstv. ráðherra nefndi að það eina sem menn ætla að gera í þessu er að koma með skýrslu um samevrópskt tryggingakerfi árið 2014, virðulegur forseti. Það er enginn smáhraði á því máli. Og bara til að upplýsa það þá er árið 2010 núna nema hæstv. ráðherra hafi einhverjar aðrar upplýsingar.

Við skulum líka huga að því sem lagt er upp með í frumvarpinu, að skipta þessu upp í tvær deildir. Í grófum dráttum gengur frumvarpið út á að setja skaðann af gamla kerfinu í eina deild og loka henni. Það þýðir að meira er ekki greitt þangað inn og menn ætla síðan að byrja upp á nýtt. Segjum að menn muni reyna hvað þeir geta til að fá undanþágu frá tilskipuninni eða reyna að fá fram einhverja leið til að mæta íslenskum aðstæðum og það gangi engan veginn. Gæti þá ekki einhver komist að þeirri niðurstöðu að skynsamlegt væri að láta íslenska bankakerfið borga áfram fyrir þann skaða sem íslenska bankakerfið olli þjóðinni? Hver annar á að greiða það? Ég tala nú ekki um í tengslum við það mikla deilumál sem við höfum mikið rætt, viðskiptadeilur okkar við aðrar þjóðir um að okkur beri með einhverjum hætti að greiða af þeim skuldum og að ríkið þurfi að koma að því. Ef það er svo, væri ekki nær að halda áfram að láta bankana greiða þá reikninga? Væri það ekki skynsamleg niðurstaða, sérstaklega í ljósi þess að ný deild mun hvort eð er aldrei verða nein raunveruleg vernd fyrir bankakerfið? Við skulum ekki blekkja okkur í því sambandi, sú vernd á ekki eftir að verða til.

Mér sýnist nú líka að svo margt sé að gerast nákvæmlega núna í evrópsku bankakerfi að skynsamlegt væri að fylgjast með því og sjá hvernig mál þróast, t.d. á Írlandi. Írar fóru aðra leið en við Íslendingar, þeir ábyrgðust alla bankana og voru þá í rauninni að bjarga erlendum kröfuhöfum á meðan við tókum skellinn, þeir sem tóku mestan skellinn voru erlendir kröfuhafar fyrir íslenska bankahrunið. Írar hafa núna leitað á náðir Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og Evrópusambandsins. Ég var að lesa það á vefnum áðan að Portúgalar væru væntanlega á sömu leið og hugsanlega Spánverjar líka. Í ofanálag ræða menn jafnvel um að evrunni verði skipt upp í tvo gjaldmiðla. Hvað sem því líður, hvað sem menn telja í því, ég ætla ekki að spá hvað gerist, þá er eitt er alveg ljóst: Nú eru óvissir tímar í evrópsku bankakerfi. Það er það eina sem er algjörlega öruggt.

Norðmenn eru nú frekar einbeittir í hagsmunagæslu sinni. Þeir fara að vísu öfuga leið, þeir eru ekki tilbúnir til að innleiða þessa tilskipun fyrr en þeir fá að setja hærri lágmarkstryggingu en 100 þús. evrur. Það er auðvitað mjög þægilegt vandamál ef þeir hafa efni á því. Við höfum ekki efni á slíku. Það sem ég er að vísa í með þessu, virðulegur forseti, er að Norðmenn gæta sinna hagsmuna með beinum hætti. Við fórum fram á það, bæði stjórnarandstæðingar og stjórnarliðar, að hagsmunum Íslendinga yrði gætt í þessu máli. Mér kemur það á óvart að hæstv. ráðherrar hafi ekki hlustað á þann málflutning og áhyggjur okkar af málinu og að þeir hafi ekki enn heimsótt kollega sína í Evrópusambandinu til að gæta hagsmuna Íslendinga. Ég verð að segja að það veldur mér afskaplega miklum vonbrigðum.

Virðulegur forseti. Ég held að ég hafi haldið svipaðar ræður áður af nákvæmlega sama tilefni en á þeim tíma sem hefur liðið frá því að þær ræður voru haldnar hefur grunur minn styrkst um að miklir gallar væru við þetta fyrirkomulag. Ég vísa þá sérstaklega í þær fréttir sem okkur berast núna af bankakerfum Evrópuríkjanna sem ég nefndi. Þetta segir okkur að við þurfum að stíga mjög varlega til jarðar í þessu máli og fara vel yfir það. Það segir okkur líka að hæstv. ríkisstjórn verður að gæta hagsmuna Íslendinga og útskýra fyrir forustumönnum Evrópusambandsins að þetta fyrirkomulag gengur mjög illa upp fyrir Íslendinga, svo ekki sé dýpra í árinni tekið. Hægt er að færa málefnaleg og sterk rök fyrir því. Ég hvet hæstv. ráðherra til að gera það.