139. löggjafarþing — 33. fundur,  23. nóv. 2010.

fjárhagsstaða heimila og fyrirtækja.

238. mál
[19:20]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um úttekt á fjárhagsstöðu heimila og fyrirtækja. Frumvarp þetta var flutt í nokkuð svipaðri mynd á 138. löggjafarþingi en hlaut ekki afgreiðslu og er því lagt fram að nýju. Á frumvarpinu hafa verið gerðar breytingar sem eru í samræmi við þær athugasemdir sem bárust efnahags- og skattanefnd Alþingis þegar frumvarpið var þar til umfjöllunar svo og ábendingar sem hafa borist ráðuneytinu.

Markmið frumvarpsins er að tryggja aðgang að gögnum sem eru nauðsynleg til að geta gert úttekt á fjárhagsstöðu heimila og fyrirtækja og metið árangur aðgerða stjórnvalda í þágu þeirra í yfirstandandi efnahagslægð. Hingað til hefur verið erfitt fyrir stjórnvöld að meta nákvæmlega skuldavanda heimila og fyrirtækja vegna þess að lagaheimild hefur skort til að koma á fót miðlægum gagnagrunni. Þykir því brýnt að ráðast í lagasetningu til að ná fram markmiðum frumvarpsins. Gagnagrunnurinn mun jafnframt nýtast vel við mótun fyrirhugaðrar heildstæðrar húsnæðisstefnu sem á að vera grundvöllur að því markmiði að tryggja landsmönnum fjölbreytta og örugga valkosti í húsnæðismálum. Þá er vert að geta þess að verði frumvarpið að lögum verður úttektin hluti af tilraunaverkefni ríkisstjórnarinnar við beitingu kynjaðrar hagstjórnar og fjárlagagerðar.

Um er að ræða mjög víðtæka gagnasöfnun og mun úttektin taka tillit til ýmissa þátta, eins og aldurs, kyns, fjölskyldugerðar, skulda og eigna heimila og fyrirtækja, launatekna, hvers kyns tilfærslutekna og greiðsluúrræða sem þegar hafa verið sett í framkvæmd af stjórnvöldum. Í frumvarpinu kemur skýrt fram hjá hvaða skráarhöldurum ráðherra er heimilt að afla gagna og hvernig standa skuli að afhendingu upplýsinga vegna úttektarinnar.

Lagt er til að Persónuvernd verði falið að mæla fyrir um hvernig standa skuli að samkeyrslu og þeim aðferðum sem skuli beitt við birtingu á niðurstöðum úttektar. Það er ekki markmið frumvarpsins að koma á fót varanlegu gagnasafni, heldur að tryggja söfnun gagna meðan þörf er á í ljósi tímabundinna og óvenjulegra efnahagsaðstæðna í samfélaginu. Af þessum ástæðum er mælt fyrir um að gildistími laganna verði til 1. janúar 2014 en fyrir þann tíma skal allri úrvinnslu gagna lokið. Þegar niðurstöður úttektarinnar liggja fyrir skal ráðherra birta þær í ríkisstjórn og tekur hún síðan ákvörðun um hvernig bregðast skuli við niðurstöðunum.

Til að taka fyrir allan misskilning um tímamörk birtinga er gert ráð fyrir að heimilt verði að afla gagna ársfjórðungslega á framangreindu tímabili og að unnt sé að kynna niðurstöður hvenær sem er eftir að búið er að vinna upplýsingar úr fyrstu samkeyrslu. Ætlunin er því að hafa lifandi gagnagrunn sem getur hjálpað okkur að takast á við erfiðar spurningar um þróun fjárhagsstöðu heimila og fyrirtækja á næstu árum.

Ástæðan fyrir því að ekki er mælt fyrir um varanlegan gagnagrunn er sú að ekki er talin þörf á að keyra saman svo ítarleg gögn um stöðu heimila og fyrirtækja í eðlilegu árferði. Úttektin sem hér er mælt fyrir um getur hins vegar nýst á síðari stigum þegar og ef ákvörðun verður tekin um varanlegt gagnasafn um almenna skuldaþróun heimila og fyrirtækja. Breytingar sem gerðar hafa verið á frumvarpinu frá því að það var flutt á 138. löggjafarþingi eru þær helstar að bætt hefur verið við skráarhöldurum og upplýsingum frá þeim svo og ákvæði sem heimila ráðherra að tilnefna vinnsluaðila. Þar með er ekki útilokað að aðrir aðilar en starfsmenn ráðuneytisins fái aðgang að gagnasafninu þótt áfram sé mælt fyrir um þrönga aðgangsstýringu af eðlilegum ástæðum.

Eins og gefur að skilja er um kostnaðarsamt verkefni að ræða. Samkvæmt kostnaðarmati fjármálaráðuneytisins er gert ráð fyrir að heildarkostnaður við frumvarpið muni nema allt að 50 millj. kr. á næstu þremur árum.

Virðulegi forseti. Ég tel afar brýnt að stjórnvöld hafi aðgang að öflugu tæki til að fylgjast grannt með fjárhagsstöðu heimila og fyrirtækja við þær aðstæður sem við búum nú við. Með slíkri úttekt eru mun meiri líkur á að stjórnvöld bregðist rétt við vandanum og að fjármunum sé vel varið. Ég tel að í reynd sé ekki val um hvort við ráðumst í rannsókn af þessum toga, einungis með hvaða hætti það er. Aðrar leiðir en sú sem hér er lögð til munu verða bæði tímafrekari og kostnaðarsamari og því er farin sú leið að leggja þetta mál til í þessum búningi.

Að síðustu vænti ég þess að málið fái fljótan framgang í hv. efnahags- og skattanefnd sem fær það til meðferðar. Það er afskaplega mikilvægt að við náum sem allra fyrst að hrinda þessu verkefni af stað. Ég held satt að segja að sú töf sem orðin er á því að unnt sé að koma þessu máli af stað sé þegar orðin skaðleg og því mikilvægt að við náum samstöðu um málið sem allra fyrst. Ég legg að lokum til að málinu verði vísað til efnahags- og skattanefndar og til 2. umr.