139. löggjafarþing — 33. fundur,  23. nóv. 2010.

fjárhagsstaða heimila og fyrirtækja.

238. mál
[20:17]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir góða umræðu um þetta mál sem hefur þó farið nokkuð yfir víðan völl. Það er því rétt að víkja að nokkrum atriðum og skýra þau. Í fyrsta lagi er nauðsynlegt að taka fram, í framhaldi af ágætri ræðu hv. þm. Péturs Blöndals áðan, að auðvitað er ekki ætlunin að það verði engin gögn úr þessari athugun fyrr en 2014. Þvert á móti er ætlast til þess að við höfum upplýsingar út úr þessu með reglulegu millibili öll þrjú árin sem rannsóknin stendur. Góðar vonir standa til þess, ef þetta mál afgreiðist hratt í þinginu, að við getum verið með fyrstu gögnin tilbúin í upphafi febrúarmánaðar eins og hv. þingmaður kallaði eftir að þyrftu að liggja fyrir.

Það er endalaust hægt að deila um aðferðir í þessu en það er einmitt sú deila sem tefur fyrir aðgerðum. Seðlabankinn vann mjög viðamikla rannsókn á skuldum heimilanna og umfangi þeirra í janúar 2009 og niðurstöðurnar lágu fyrir í apríl 2009. Sú rannsókn var mannfrek og dýr. Hún var endurtekin í janúar 2010 og var niðurstöðum skilað í apríl á þessu ári. Þetta frumvarp var hins vegar lagt fram af forvera mínum í marsmánuði 2010. Mér finnst því svolítið sérkennilegt að heyra ræður eins og hjá sumum hv. þingmönnum hér í kvöld sem flytja svona einhvern hálfeinfeldningslegan garra um aðgerðaleysi ríkisstjórnarinnar að þessu leyti. Það var hins vegar þannig að þingið afgreiddi ekki málið, það dagaði hér uppi. Nú komum við með það í annarri tilraun. En það er auðvitað við þingið að eiga í þessu efni og þingið getur ekki kallað eftir ábyrgð á því á hendur ríkisstjórn að mál komist ekki í gegnum nefnd. Við erum að reyna að fara leið sem getur verið einfaldari í meðförum og skilað góðri niðurstöðu og ég held að nú sé nóg komið af þrætum um aðferðafræði. Það er hægt að halda þeim áfram til eilífðarnóns en nú skiptir máli að ná upplýsingunum fram.

Ég ætla ekki að fara að eiga orðastað við þingmenn sem tóku þátt í umræðunni og héldu hefðbundnar ræður um ágæti flatrar niðurfellingar og annarra slíkra óframkvæmanlegra töfralausna, ég held að það sé betra að gera það þegar þeir eru viðstaddir. Auðvitað er það svo að þær aðstæður sem við búum við í dag eru ekki fordæmalausar þegar kemur að stöðu heimilanna. Vissulega er mikil fjölgun í þeim heimilum sem eiga erfitt með að ná endum saman en það er alveg ótrúlegt að sjá úr nýjustu lífskjarakönnun Hagstofunnar hversu þetta hlutfall er líkt því sem það var 2004. Það er algjörlega ótrúlegt að sjá hve skuldsetning heimilanna er lítið frábrugðin því sem hún var 2004 og möguleikar heimilanna til að bregðast við óvæntum útgjöldum. Þetta er lítillega verra en það er enginn eðlismunur þar á. Við verðum líka að horfa á hlutina í heildarsamhengi og meta það eins og það sannanlega er og gæta allrar sanngirni í umræðu um aðstæðurnar.

Virðulegi forseti. Ég þakka þessa ágætu umræðu og legg til að málinu verði vísað til efnahags- og skattanefndar. Ég tek líka fram vegna þeirrar umræðu sem hér fór fram að auðvitað verður þetta ekki þannig að ég verði með puttana í vinnslu þessa verkefnis þó svo að það hafi verið vistað í efnahags- og viðskiptaráðuneytinu. Hins vegar er óhjákvæmilegt að það verði vistað á einum stað innan stjórnkerfisins og við gætum vel að upplýsingaöryggi. Frumvarpið hefur verið skrifað með það að leiðarljósi að það veki sem minnsta andstöðu og athugasemdir frá Persónuvernd og sé einfalt í framkvæmd miðað við hlutverk. Svo er það auðvitað þessa ráðuneytis að sjá þinginu fyrir upplýsingum. Þingið veit þá hvert það á að leita eftir upplýsingunum og það er engrar undankomu auðið, ef þingið er búið að samþykkja þessi lög veit það að það á aðgang að þessum upplýsingum, á rétt á þeim og ráðuneytið verður að standa skil á þeim.