139. löggjafarþing — 34. fundur,  24. nóv. 2010.

störf þingsins.

[14:07]
Horfa

Sigmundur Ernir Rúnarsson (Sf):

Virðulegur forseti. Við þingmenn fjöllum núna eðli máls samkvæmt um tölur og prósentur, en á bak við þessar tölur og prósentur er fólk sem á stundum vill gleymast. Mig langar, frú forseti, að taka upp mál drengs norður í landi sem að mínu viti hefur verið hafnað af kerfinu, og reyndar Akureyrarbæ. Hann er 15 ára, býr við mikla fjölfötlun og verður sennilega að flytja af heimili sínu ef mál ganga fram með þeim hætti sem greint var frá í fréttum á Stöð 2 í gær.

Það er gríðarlegt álag fyrir fjölskyldur að annast fjölfötluð börn og það umönnunarbótakerfi sem Íslendingar hafa komið á fót hefur skilað gríðarlega miklum árangri. Engu að síður búa mörg þessara barna við 2. flokks mannréttindi og verða sakir aðstæðna sinna að flytja að heiman langt fyrir aldur fram. Svo er um þennan dreng sem sakir fötlunar sinnar, hann er heyrnarlaus og blindur og kominn í hjólastól, verður að líkindum að flytja að heiman vegna þess að Tryggingastofnun hafnar málaleitan foreldra hans sem búa við fremur rýr kjör og eru klárlega ekki efnafólk. Sömuleiðis hefur bæjarfélag hans hafnað kröfum um að aðgengi á heimili hans verði bætt svo hann geti búið þar áfram.

Þetta er alvörumál og ég minni á að á bak við þær prósentur og tölur sem við þingmenn fjöllum um hverju sinni er fólk sem við eigum að taka tillit til í hvívetna. Þessi drengur biður aðeins um að fá að búa áfram á heimili sínu eins og öll önnur börn á Íslandi vilja gera. Ég beini því máli mínu til (Forseti hringir.) hv. starfandi formanns félagsmálanefndar og spyr hvort hún telji að þessi drengur geti áfram búið á heimili sínu í krafti aðstoðar Tryggingastofnunar (Forseti hringir.) og hvort hún muni taka þetta mál upp í nefndinni sinni.