139. löggjafarþing — 34. fundur,  24. nóv. 2010.

störf þingsins.

[14:12]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Vegna umræðunnar á undan hvet ég þá þingmenn sem hafa mest um málið að segja að leysa það. Þetta er þannig mál að það þarf ekkert að ræða að þarna er gloppa í kerfinu og þá ganga menn bara í að leysa það. Við skulum ekki velta fyrir okkur hvar þetta liggur hjá viðkomandi stofnunum nema til þess að finna leið að lausn.

Virðulegi forseti. Ég vil sömuleiðis eiga orðastað við hv. formann félags- og tryggingamálanefndar. Ástæðan er einföld. Ég vildi gjarnan fá svar við spurningu sem ég tel að öll þjóðin sé að bíða eftir svari við. Í það minnsta fæ ég oft þessa spurningu. Kannski hefur eitthvað farið fram hjá mér, en þó held ég ekki. Hvenær kemur lausnin á skuldavanda heimilanna? (Gripið fram í: Eftir helgi.) Ég var að fletta þessu upp. Hér voru mótmæli 1. október. Þá byrjuðu þau og þá var um það talað að það kæmi strax eftir helgi og það var sett í forgang að koma með lausn. Nú er 24. nóvember. Í millitíðinni var settur af stað hópur til að reikna út. Hann skilaði 10. nóvember. Við erum búin að heyra núna viku eftir viku að þetta komi í næstu viku eða eftir helgi. Svar. Það er enginn vafi að stjórnarliðar vita meira um þetta mál en aðrir. Eins og einhver sagði, það skjaldborgar sig að fá svar við þessari spurningu. Ef það eru engin svör og menn ætla ekki að gera neitt meira en gert hefur verið verður það líka að koma fram. Það er ekki hægt að bjóða fólki upp á það að bíða hér (Forseti hringir.) viku eftir viku og fá alltaf sama svarið, að þetta sé á leiðinni. Stjórnarmeirihlutinn verður að koma hreint fram (Forseti hringir.) í þessu máli og gefa svar.