139. löggjafarþing — 34. fundur,  24. nóv. 2010.

störf þingsins.

[14:14]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ríkisstjórnin er alltaf með aðgerðir varðandi skuldavanda heimilanna. Við erum nú að breyta enn eina ferðina frumvarpi um greiðsluaðlögun fyrir heimilin í landinu til að gera það skilvirkara og betra. Viðskiptaráðherra er að ljúka samningum varðandi útvíkkun á sértækri skuldaaðlögun innan bankanna til að opna hana og gera að því skilvirka úrræði sem hún átti að vera. Það er jafnframt verið að fara í það af fullum krafti að endurskipuleggja skuldir fyrirtækja innan sértækrar skuldaaðlögunar.

Mjög góður gangur hefur verið í þeirri vinnu sem forsætisráðherra hefur leitt um skuldavanda heimilanna og mjög ítarlegri og yfirlitsgóðri skýrslu hefur verið skilað þar sem við sjáum kostnaðinn við aðgerðirnar og hvaða aðgerðir eru markvissastar til að aðstoða þau heimili sem í raun eiga í vanda. Nú er róið að því öllum árum, í samráði við þá sem þurfa að standa straum af þeim kostnaði sem af þessu hlýst, að finna niðurstöðu sem þjónar þeim markmiðum að aðstoða þau heimili sem eru í mestum vanda en án þess að eyðileggja fjármálakerfið.

Ég sé að Sjálfstæðisflokkurinn heldur sig við þá línu að vilja (Gripið fram í.) lækka greiðslubyrði tímabundið og lengja í lánum. (GÞÞ: Hvenær kemur …?) Við erum að reyna að vinna frekar í því að ná að afskrifa skuldir hjá þeim sem eru hvað verst settir því að (Gripið fram í.) við teljum að við eigum ekki að velta vandanum á framtíðina. (GÞÞ: Hvenær koma tillögurnar?) Tillögurnar eru bara á leiðinni, það þarf [Hlátur í þingsal.] að nást — (Gripið fram í: Málið er í nefnd.) Já, en ríkisstjórnin vinnur í samráði við þá aðila sem eiga að fjármagna aðgerðirnar því að aðgerðir sem sigla fjármálakerfi landsins í strand eru (Forseti hringir.) vondar aðgerðir og það vita hv. þingmenn jafn vel og ég. [Frammíköll í þingsal.] Allt að koma.