139. löggjafarþing — 34. fundur,  24. nóv. 2010.

störf þingsins.

[14:26]
Horfa

Skúli Helgason (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessa fyrirspurn. Umræðan er afar mikilvæg og snýr að því hvernig við getum breytt forgangsröðuninni og forsendum í okkar háskólastarfi þannig að við stöndum uppi með betri háskóla í landinu en við höfum í dag. Það finnst mér lykilatriði málsins, en menn eigi ekki að fara inn í þetta mál út frá þeim forsendum að þarna sé um að ræða hefðbundinn samruna fyrirtækja eingöngu á peningalegum forsendum. Auðvitað er eðlilegt að menn taki umræðuna um þessar mundir í samhengi við kröfur um mikinn sparnað og mikinn niðurskurð í ríkiskerfinu öllu, en markmiðið þarf að vera betra skólastarf. Þar er rétt að hafa í huga að við erum að mörgu leyti á allt annarri vegferð en samanburðarþjóðirnar innan OECD. Við verjum hlutfallslega meiri fjármunum í grunnskólastigið á Íslandi en samanburðarþjóðirnar gera, en hlutfallslega minna í framhaldsskólana og sérstaklega háskólana.

Þetta þurfum við að skoða. Þetta er að mörgu leyti órökrétt því að eins og menn þekkja er kostnaðurinn á hærri skólastigum á nemanda mun meiri. Kostnaður við rannsóknir og aukna sérhæfingu bætist þar við. Þetta kallar að mínu mati á að við tökum allt skólakerfið til endurskoðunar með nýja forgangsröðun í huga.

Á sama tíma kallar atvinnulífið eftir því að við eflum mjög áhersluna á verk- og tæknimenntun í landinu. Við erum með geira sem er í örum vexti eins og hugverkaiðnaðinn sem telur sig geta bætt við 3 þús. nýjum störfum á næstu þremur árum, en forsendan er sú að hér heima sé fyrir hendi sérhæft starfsfólk til að vinna þessi störf. Menntakerfið annar ekki þessari eftirspurn í dag. Hættan er sú að fyrirtækin í þessum geira flytji starfsemi sína í enn ríkari mæli úr landi og þá erum við búin að tapa þessum möguleikum til vaxtar.

Ég tel mjög mikilvægt að menn fari í sameiningaráform út frá þeim markmiðum að bæta menntakerfið (Forseti hringir.) og styrkja samtalið á milli mennta og atvinnulífsins og að það eigi að klára þá vinnu á næstu mánuðum.