139. löggjafarþing — 34. fundur,  24. nóv. 2010.

störf þingsins.

[14:28]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Mig langar aðeins að ræða örstutt fríverslunarsamninga. Við heyrðum af því í fréttum að hæstv. utanríkisráðherra er staddur í Genf, líklega, þar sem verið er að ræða fríverslunarsamninga, m.a. við Rússland. Glaðhlakkalegur segir hæstv. ráðherra frá því að það sé mjög gott fyrir Ísland að þessi fríverslunarsamningur nái fram að ganga.

Ég fór þá að velta fyrir mér hvernig gengju aðrar viðræður sem eru í gangi. Við eigum í tvíhliða samningaviðræðum milli Íslands og Kína svo dæmi sé tekið. Það er eins og að þær viðræður hafi hreinlega gufað upp og ég held að það sé mjög mikilvægt að við fáum mjög fljótt yfirlit yfir það hvernig staðan í þeim viðræðum er og af hverju þær eru stopp ef þær eru stopp. Legg ég nú til að utanríkismálanefnd beiti sér fyrir því að hæstv. ráðherra kynni það fyrir nefndinni og kalli jafnvel í framhaldinu á fulltrúa kínverskra stjórnvalda til nefndarinnar til að fara yfir málið líka og upplýsa þeirra hlið á málinu.

Síðan var flutt þingsályktunartillaga um að hefja fríverslunarviðræður við Bandaríkin. Það var svolítið sorglegt, frú forseti, að heyra hvernig hæstv. utanríkisráðherra brást við þeirri tillögu en henni hefur væntanlega verið vísað til utanríkismálanefndar. Ég vil segja það sama um hana, ég hvet utanríkismálanefnd til að drífa sig í að taka þá tillögu til umfjöllunar og e.t.v. óska eftir því að fulltrúi bandarískra stjórnvalda ræði líka við nefndina.

Ég vil í þessu sambandi, frú forseti, benda á orð sem utanríkisráðherra Bandaríkjanna lét falla 17. júní sl. þar sem hún sagði að Íslendingar gætu reitt sig á trausta vináttu og stuðning Bandaríkjamanna í þeim erfiðleikum sem nú steðja að landinu. Við hljótum því (Forseti hringir.) að kalla fljótlega eftir því hvort utanríkisráðuneytið hafi látið reyna á þennan velvilja.