139. löggjafarþing — 34. fundur,  24. nóv. 2010.

efnahagsmál -- málefni fatlaðs drengs -- skuldavandi heimilanna o.fl.

[14:32]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Virðulegi forseti. Það var áhugavert fyrr í umræðunni að hlusta á hv. formenn viðskiptanefndar og efnahags- og skattanefndar, hina öflugu þingmenn hvorn úr sínum stjórnarflokknum, rífast bæði um stefnu og skoðanir. Það er kannski ekki furðulegt að ríkisstjórninni gangi ekkert sérstaklega vel að koma málum fram þegar þetta mikill ágreiningur er á milli þessara öflugu þingmanna. (Gripið fram í.)

Það er kunnara en frá þurfi að segja að menn þurfa að koma upp daglega og minna á að hagvaxtarspáin sem lá fyrir fyrr í sumar spáði 3,2% hagvexti en nú erum við komin niður í 2%. Og það er 30% minni hagvöxtur. Sá hagvöxtur sem við ætluðum að byggja á kemur fyrst og fremst af einkaneyslu, þ.e. lántökum heimila áfram, en hér er engin framleiðni. Þess vegna langar mig að lesa aðeins upp úr Bændablaðinu sem er hið ágætasta blað. Í því segir að á aðalfundi dönsku bændasamtakanna hafi verið fjallað um það að formaður samtakanna hefði haldið fram í setningarræðu sinni að danskur landbúnaður gæti lagt sín lóð á vogarskálarnar til að skapa hagvöxt í Danmörku. Þar segir svo, með leyfi forseta:

„Hann telur að danskir bændur þurfi að nýta sína styrkleika til að ná betri árangri en þeir geri jafnframt kröfu um heilbrigt samkeppnisumhverfi.“

Þar kemur líka fram að í kreppu þurfi allir að einblína á styrkleika sína og finna nýjar leiðir til að skapa verðmæti. Þetta gæti svo hæglega átt við líka um Ísland og í því sambandi langar mig að minnast aðeins á garðyrkjuna. Á Íslandi var á síðasta ári neysla á fersku grænmeti um 43 kíló samkvæmt yfirliti sem Magnús Ágústsson garðyrkjuráðunautur hefur árlega tekið saman. Þar af er innflutningur 20 kíló af vörum sem við getum hæglega framleitt innan lands með ódýrri orku, vatni og nægilegu landsvæði. Þar gætum við framleitt meiri matvæli, þar gætum við sparað erlendan gjaldeyri (Forseti hringir.) og þar gætum við búið til hagvöxt. Hvar er stefna ríkisstjórnar í þessu? (Gripið fram í: Heyr, heyr.)