139. löggjafarþing — 34. fundur,  24. nóv. 2010.

svar við fyrirspurn.

[14:35]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegur forseti. Mér þykir leiðinlegt að þurfa enn og aftur að vekja athygli á sama málinu, en ég var að fá í hendurnar svar frá hæstv. heilbrigðisráðherra við tiltekinni fyrirspurn. Ég vil gjarnan fá viðbrögð frá einhverjum þingmanni sem skilur ekki þessa spurningu en hún hljóðar svo, með leyfi forseta.

„Hvað er gert ráð fyrir mikilli fjölgun rýma samkvæmt áætlun ríkisstjórnarinnar um uppbyggingu hjúkrunarrýma á árunum 2010–2016, sundurliðað eftir árum og hjúkrunarheimilum?“

Er einhver hér sem skilur þetta ekki? Eða einhvers staðar? (Gripið fram í: Á hvaða ári?) Þú skildir það ekki, 2010–2016.

Virðulegi forseti. Þessu er ekki svarað. Hér er fjöldinn allur af setningum um eitthvað sem kemur málinu — ég ætla ekki að segja að þær komi því ekki neitt við, en þessi tafla sem er til uppi í heilbrigðisráðuneyti er ekki sett inn. (Forseti hringir.)

Virðulegur forseti. Ég er hvað eftir annað búinn að hvetja virðulegan forseta til að ganga í þessi mál og geri það enn og aftur hér með. Þetta er gersamlega óþolandi.