139. löggjafarþing — 34. fundur,  24. nóv. 2010.

fjárhagsleg staða háskólanema.

[14:53]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (F):

Frú forseti. Mig langar dálítið að setja þessa umræðu í samhengi við umræðu sem var áðan um störf þingsins og spár um minni hagvöxt en áður hafði verið spáð fyrir um. Hv. þm. Skúli Helgason minntist á það í samhengi við aðra umræðu að hugverkaiðnaðinn skorti vinnuafl. Það hefur verið vitað um nokkurt skeið, hann skortir menntað vinnuafl. Það er skortur á tækni- og raungreinamenntuðu fólki á Íslandi. Þetta er iðnaður sem getur kannski skapað 3 þús. störf á næstu þremur árum miðað við einhverjar áætlanir sem hafa verið gerðar í þeim efnum. Mér finnst að við eigum að horfa á námslánakerfið út frá þessum sjónarhóli. Ef maður tekur bara þröngan sjónarhól á uppbyggingu hugverkaiðnaðar og bætir síðan við uppbyggingu hjá mörgum öðrum iðngreinum þar sem við þurfum að skaffa menntað vinnuafl endum við með aðra mjög mikilvæga nálgun á námslánakerfið. Hún felur ekki bara í sér félagslega umræðu um hvað það kostar fyrir námsmann að lifa, heldur felur líka í sér þá umræðu hverju værum við tilbúin að kosta til til að þjóðfélagið geti skaffað þetta vinnuafl. Hvernig gerum við það meira aðlaðandi að fara í nám? Mér sýnist nágrannaþjóðirnar gera þetta í miklum mæli, þær hafa ekki bara lánakerfi heldur hafa þær styrkjakerfi. Þær fjárfesta beinlínis í menntun með styrkjum. Þetta gerum við ekki sem mér finnst benda til þess að við séum komin mjög skammt á veg í því að hugsa framfærslukerfi námsmanna sem fjárfestingarkerfi fyrir þjóðfélag.

Ég held að við séum búin að reka okkur á það áþreifanlega núna þegar okkur skortir beinlínis vinnuafl, tækni- og raungreinamenntað, að við hefðum betur tekið upp þessa fjárfestingarhugmynd miklu fyrr og þá værum við að ræða námslánakerfið á allt öðrum forsendum en bara þessum félagslegu (Forseti hringir.) útreikningum um hvað það kostar manneskju að lifa.