139. löggjafarþing — 34. fundur,  24. nóv. 2010.

fjárhagsleg staða háskólanema.

[15:03]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin og þeim þingmönnum sem tóku þátt í umræðunni sem hefur verið mjög góð. Ég held að frá hruni hafi Alþingi Íslendinga ekki rækt skyldur sínar gagnvart þessum hópi eins vel (Gripið fram í.) og þeir aðilar sem við ræðum um eiga skilið. Við höfum jú rætt mikið um skuldastöðu heimilanna og atvinnulífsins en ég man ekki eftir mörgum umræðum um stöðu námsmanna almennt og fjárhagslega afkomu þeirra.

Ég held að ef eitthvað ætti að vera ætti framfærslugrunnur þeirra sem stunda nám í dag að vera hærri en þeirra sem þiggja félagslega aðstoð eða atvinnuleysisbætur. Ég tel að með því kerfi sem við höfum byggt upp og þeim upphæðum sem við ræðum um séum við að spara aurinn en kasta krónunni því að það er hagkvæmt að efla menntun í landinu til framtíðar litið. Það er miklu betra fyrir íslenska þjóð að hafa fleiri einstaklinga í skólakerfinu í námi en á bótakerfinu.

Ég spyr hæstv. ráðherra að lokum hvernig hún geti réttlætt að barnlaus einstaklingur í námi fái 121 þús. kr. í framfærslustyrk á mánuði á meðan bróðir viðkomandi einstaklings sem er á atvinnuleysisbótum fær 150 þús. kr. á mánuði. Það er einhver hugsanaskekkja í því. Ef eitthvað er ætti það að vera öfugt hvað þetta snertir.

Ég tek undir með hæstv. ráðherra þegar hún hvetur okkur þingmenn til að vinna með sér að því að hækka grunnframfærsluna. Hún verður að hækka í störfum okkar hér. Það er þjóðinni til hagsbóta til framtíðar litið að ráðast í slíkar aðgerðir. Það eigum við að gera núna í tengslum við gerð fjárlagafrumvarpsins því að ef við meinum í alvöru að (Forseti hringir.) við viljum að fólk sæki í háskólanám á þeim tímum sem við lifum núna þurfum við að breyta þeim tölum sem við höfum rætt um í dag.