139. löggjafarþing — 34. fundur,  24. nóv. 2010.

raforkulög.

204. mál
[15:13]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. iðnaðarráðherra fyrir hennar mál. Það má ábyggilega halda því fram að með sama hætti og áður hefur verið um frestun að ræða vegna aðstæðna á fjármálamörkuðum og þess háttar, viðkvæmrar stöðu orkufyrirtækjanna, geti verið tilefni til frestunar þeirra aðgerða sem Orkuveita Reykjavíkur ætti að grípa til samkvæmt gildandi lögum. Ég tek það fram að ég hef ekki forsendur til að meta það en þykist vita að það verði skoðað í nefndinni.

Það sem ég staldra hins vegar við þegar ég hlýði á mál hæstv. iðnaðarráðherra og les athugasemdir við frumvarpið eru þær vangaveltur sem þar birtast yfir höfuð um hvort sá fyrirtækjaaðskilnaður sem lögin gera ráð fyrir eigi að eiga sér stað. Hæstv. iðnaðarráðherra hefur boðað að hún muni láta fara fram hagfræðilega athugun á því hvort þessi fyrirtækjaaðskilnaður eigi við hér á landi. Í tilefni af þeim orðum sem fram komu, bæði í ræðu hæstv. ráðherra og í greinargerð, vildi ég spyrja hvort það væri skilningur ráðuneytisins að Íslendingar hefðu svigrúm til þess að haga fyrirkomulaginu með öðrum hætti en tilskipun Evrópusambandsins sem vísað er til gerir ráð fyrir. Ég veit ekki hvort það þjónar miklum tilgangi að láta þessa hagfræðilegu úttekt fara fram ef samningsskuldbindingar okkar samkvæmt EES-samningnum gera það að verkum að þær vangaveltur verða bara fræðilegar en hafa ekki raunhæft gildi, ef við verðum engu að síður að láta þessa tilskipun taka gildi eins og hún er sett fram.