139. löggjafarþing — 34. fundur,  24. nóv. 2010.

raforkulög.

204. mál
[15:17]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Já, ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið og verð að segja að hún er auðvitað að ganga býsna langt til að koma til móts við óskir þessa ágæta fyrirtækis, Orkuveitu Reykjavíkur, miðað við hver skoðun hennar er á málunum, alla vega hvað varðar framtíðarfyrirkomulag. Nóg um það.

Ég vildi hins vegar þakka fyrir svarið varðandi svigrúmið. Ég legg til að samhliða hagfræðilegu útfærslunni verði líka látin fara fram lögfræðileg úttekt nákvæmlega á þeim þáttum sem varða hvaða svigrúm eru fyrir hendi. Ég tek hins vegar undir með hæstv. ráðherra að í öllum grundvallaratriðum sé eðlilegra að þar sem annars vegar er um að ræða einkaleyfisstarfsemi og hins vegar samkeppnisstarfsemi að fullur aðskilnaður sé hafður þannig að ekki verði árekstrar milli mismunandi sviða. Ég held að það sé fyrirkomulag sem við hljótum að vilja byggja upp.