139. löggjafarþing — 34. fundur,  24. nóv. 2010.

raforkulög.

204. mál
[15:21]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S):

Virðulegi forseti. Við ræðum breytingu á raforkulögum þar sem fresta á enn einu sinni fullum aðskilnaði milli raforkusölu og orkuframleiðslu. Þannig er mál með vexti að raforkutilskipun Evrópusambandsins gengur út á að auka samkeppni um raforkuframleiðslu til þess að lækka verð til neytenda. Eins og við vitum þarf bæði að flytja og dreifa orkunni, það er ekki nóg að framleiða hana. Menn komu auga á það fyrir löngu að þessi dreifing og sala væri einokunarmarkaður. Þar sem ekki er hægt að innleiða samkeppni var brugðið á það ráð að skilja á milli flutnings, sölu og framleiðslu og reyna að komast af stað einhvers konar samkeppni í sjálfri orkuöfluninni.

Nú eru fjölmargir raforkuframleiðendur á Íslandi. Hvar sem maður býr á landinu getur maður orðið viðskiptavinur einhverra þessara orkuframleiðslufyrirtækja, en hvað varðar flutning skiptir maður við eitt fyrirtæki, LínuNet (Gripið fram í.) — nei, Landsnet, fyrirgefið — og síðan við mismunandi orkusölufyrirtæki. Þetta gerir það að verkum að það er samkeppni á milli orkuframleiðslufyrirtækjanna. Við getum valið okkur framleiðslufyrirtæki og förum einfaldlega þangað sem verðið er lægst. Það er talið neytendum til hagsbóta.

Vegna þess vandamáls sem fylgir einokun, þar sem einokunarfyrirtæki hafa alltaf tilhneigingu til þess að innheimta einhvers konar einokunarrentu, er okkur vandi á höndum.

Það sérstaka frumvarp sem verið er að innleiða snýr meira og minna að einu fyrirtæki, þ.e. Orkuveitu Reykjavíkur. Nú er það svo að Orkuveita Reykjavíkur er nýbúin að hækka verð hjá sér vegna alvarlegra fjárhagsörðugleika sem fyrirtækið glímir við. Fyrirtækið getur ekki hækkað verð á rafmagninu úr hófi vegna þess að þá mundu viðskiptavinir einfaldlega skipta yfir í annað fyrirtæki. Þannig að þeir brugðu á það ráð að hækka söluhlutann gríðarlega mikið og nota hann til að niðurgreiða orkuhlutann. Orkuframleiðendur á Íslandi búa almennt ekki við þann munað að geta krossniðurgreitt eins og Orkuveita Reykjavíkur gerir. Lánardrottnar eru vissulega ánægðir þegar fyrirtæki geta gripið til slíkra ráða, þá er öruggara að þeir fái endurgreiðslur á lánum. En aftur á móti stöndum við uppi með það að einokunarrentan, þ.e. af sölunni, er orðin óhóflega há og er notuð til að niðurgreiða raforkuframleiðsluna sem er í samkeppni við aðra orkuframleiðendur.

Ég tel þetta afar slæmt út frá neytendasjónarmiði. Þessu hefur verið frestað einu sinni og að fresta því aftur núna um tvö ár tel ég afar slæmt fyrir neytendur í landinu. Vegna þess að á næstu — eða er það eitt ár? Vegna þess að á næsta ári getur Orkuveita Reykjavíkur hæglega gripið til þess ráðs að hækka verðið í einokunarhlutanum enn frekar til að greiða niður óráðsíu sem hugsanlega hefur átt sér stað í orkuframleiðsluhlutanum.

Ég hefði talið eðlilegt að ekki yrði farið að beiðni Orkuveitu Reykjavíkur um að fresta þessu og að hún yrði einfaldlega að glíma við þau vandamál sem fylgja því að reka fyrirtæki sem hefur hugsanlega ekki verið rekið rétt, hún yrði þá að gera það með sparnaði eða hækka verðið. Það er ekki hægt að hækka einokunarhlutann til að niðurgreiða orkuhlutann út af samkeppninni. Það er ósanngjarnt gagnvart öðrum fyrirtækjum.

Eitt er að fresta þessu, en rökin sem Orkuveitan notar eru alls ekki haldbær. Það liggur ljóst fyrir, og er grunnurinn að raforkutilskipun Evrópusambandsins sem við erum aðilar að, að það er hagkvæmt fyrir neytandann að þessi skipting eigi sér stað. Þess vegna beini ég því til hæstv. iðnaðarráðherra að eyða ekki peningum í þessa hagfræðiúttekt. Í fyrsta lagi liggur hún fyrir sem grundvöllur að Evróputilskipuninni og í öðru lagi er það þekkt staðreynd í einokunarframleiðslu og samkeppnisframleiðslu að hætta er á að menn niðurgreiði svona sitt á hvað.

Orkuveita Reykjavíkur og HS Orka hafa aðskilið í bókhaldi sínu samkeppnisreksturinn og einokunarreksturinn. Það er hægur vandi að stofna fyrirtæki um einokunarhlutann, taka hann út úr samkeppnishlutanum, og það á ekki að þurfa að vera dýrt. Það er einfaldlega tilfærsla á fólki milli fyrirtækja og jafnvel þarf ekki að skipta um húsnæði, það er hægt að setja upp einhvers konar kínaveggi þar á milli. Það á að vera tiltölulega einföld framkvæmd eftir að búið er að aðskilja bókhaldið.

Eins og ég segi, þrátt fyrir að þetta komi sér vel fyrir Orkuveitu Reykjavíkur tel ég að vegna gallans, sem hér er reynt að leiðrétta um náttúrulega einokun og krossniðurgreiðslur, eigi menn ekki að veita þetta aukaár heldur ýta fyrirtækjunum út í að aðskilja fullkomlega þennan rekstur. Það er neytendum til hagsbóta og það er sanngjarnt gagnvart samkeppnisaðilunum.