139. löggjafarþing — 34. fundur,  24. nóv. 2010.

raforkulög.

204. mál
[15:31]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Mér líst ágætlega á að þessu verði frestað. Það er mikilvægt að Orkuveitan fái tækifæri til þess að koma sér á strik og undirbúa þetta betur. Þetta er kostnaðarsamt. Þar fyrir utan hef ég ákveðnar efasemdir um að breytingin sem gerð var samkvæmt skipuninni hafi í raun leitt til mikillar samkeppni á orkumarkaði. Ef ég man rétt og þekki til hefur hún frekar leitt til hækkunar á orkuverði víða um land en það hafi lækkað vegna samkeppni. Ég hef efasemdir um að breytingin sem gerð var á sínum tíma hafi verið rétt. Ég fagna því að það eigi að fresta því að láta Orkuveituna fara þessa leið. Ég fagna því líka að ráðherra skuli ætla að taka upp eða láta kanna lagalegar og efnahagslegar forsendur þess að fara eftir þessari skipun og hvort við þurfum að fylgja henni eftir. Ég hef miklar efasemdir, frú forseti, um að það sé rétt að halda þessu til streitu. Einfaldlega vegna þess að orkureikningar margra heimila, ekki síst úti á landi, hafa hækkað frekar en lækkað við breytinguna.