139. löggjafarþing — 34. fundur,  24. nóv. 2010.

raforkulög.

204. mál
[15:36]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er ágætt að iðnaðarráðherra á samráð við fyrirtæki landsins, margir ráðherrar mættu taka sér það til fyrirmyndar að ræða betur við fólk. Hins vegar þarf að koma fram hvert ríkisstjórnin ætlar. Hvað ætlar ríkisstjórnin sér? Vissulega er brugðist við erindi fyrirtækis en hver er stefna stjórnvalda? Er það málið að við afgreiðum frestanir sem þessar æ ofan í æ, verður það niðurstaðan? Er einhver stefna? Það er í rauninni spurningin sem þarf að svara.

Síðan mætti alveg koma fram, ef hæstv. ráðherra tímir að eyða smávegis af tíma sínum í síðara andsvari, hvort sjónarmiðin varðandi hagsmuni neytenda hefðu komið til tals við smíði frumvarpsins og hvort hafi verið horft til þess þegar ákvörðunin um frestun var tekin.