139. löggjafarþing — 34. fundur,  24. nóv. 2010.

Orkuveita Reykjavíkur.

205. mál
[15:55]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S):

Virðulegi forseti. Við ræðum breytingar á lögum um Orkuveitu Reykjavíkur og hvernig reglum um ábyrgðargjald vegna lána verði breytt. Fyrir skuldir sínar þarf Orkuveita Reykjavíkur að borga ábyrgðargjald upp á 0,25% og er það hugsað sem ábyrgðargjald ef eitthvað kæmi upp á þannig að Reykjavíkurborg fengi eitthvað fyrir sinn snúð. Reglur Evrópusambandsins eru á þann veg að ekki nægi að taka eitthvert fast gjald, 0,25% eins og verið hefur, heldur eigi fyrirtæki sem njóta ábyrgðar eins og Orkuveita Reykjavíkur nýtur þarna að borga fullt verð fyrir ábyrgðina. Þá hugsar maður það þannig að fyrirtækið standi frammi fyrir því að taka lán. Ef það tekur ótryggt lán, þ.e. lán sem fyrirtækið ber eingöngu ábyrgð á sjálft, þarf það ekki að borga ábyrgðargjald. Á lánamarkaði þarf auðvitað að borga hærri vexti fyrir slíkt lán. Ef það vill hins vegar taka ábyrgðina frá Reykjavíkurborg fær það lægri vaxtakjör, en muninn á milli þess sem ekki nýtur ábyrgðargjalds og hins þarf að borga Reykjavíkurborg sem ábyrgðargjald.

Þetta er nokkuð kyndugt. Það er ekki alveg ljóst hver tilgangurinn er með þessu. Nú er Orkuveita Reykjavíkur sameignarfélag þannig að Reykjavíkurborg ber fulla ábyrgð ef við tölum bara um Reykjavíkurborg sem stærsta eiganda, auðvitað á það við um alla eigendurna, en þarna er verið að koma inn einhvers konar fyrirkomulagi um takmarkaða ábyrgð og þá fer Orkuveitan að virka svipað og hlutafélag þrátt fyrir að það sé sameignarfyrirtæki. Þannig að spurningin er hvort Reykjavíkurborg og þau sveitarfélög sem eiga hluti í Orkuveitu Reykjavíkur ættu ekki að huga að því að ganga bara hreint til verks og gera þetta að hlutafélagi. Einhvers konar bastarður er kominn inn í félagaformið þannig að það er ekki alveg ljóst hvaða þýðingu þetta hefur eða hvað þetta félagaform, sameignarfélag, þar sem þarf að borga ábyrgð eins og þessa, markaðsábyrgð, mun á endanum gera fyrir eigendastrúktúrinn í félaginu.

Ef maður lítur á hlutina frá Orkuveitu Reykjavíkur er ljóst að fjármagnskostnaður mun hækka hjá félaginu. Eins og hæstv. ráðherra sagði áðan hefur verið metið að ábyrgðargjaldið þurfi að hækka úr 0,25% upp í 0,48%. Það er ljóst að það mun hafa afleiðingar fyrir félagið vegna þess að nú hækkar hjá því fjármagnskostnaður sem gerir það að verkum að fyrirtækið verður ekki jafnarðsamt og áður o.s.frv. Fjárfestingarhegðun félagsins verður öðruvísi. Ef maður horfir á þetta frá eigandanum og köllum hann bara Reykjavíkurborg til styttingar kemur þarna alveg nýr tekjustofn eða réttara sagt hækkar tekjustofn fyrir sveitarfélögin sem eiga í fyrirtækinu um muninn á 0,25% og 0,48%. Spurningin í tengslum við þetta mál sem við vorum með hér áðan er hvort félagið, kannski enn frekar nú en áður, fari yfir í einokunarstarfsemina til að styrkja fjárfestingar í orkuöflunarstarfseminni. Það gæti vel verið, en frestunin á málinu sem við ræddum hér áðan er náttúrlega ekki nema eitt ár þannig að það er ólíklegt að það hafi einhver langtímaáhrif í för með sér.

Það er ljóst að þetta mun leiða til aukins kostnaðar fyrir Orkuveitu Reykjavíkur. Þetta mun leiða til þess að fyrirtækið getur ekki farið út í fjárfestingar. En auðvitað er það hárrétt sem hv. þm. Pétur Blöndal benti á, þeir sem njóta ríkisábyrgðar eiga að borga fyrir það einhvers konar ábyrgðargjald. Best væri að það mundi fæla fyrirtækið frá því að nýta sér ríkisábyrgð. Þar af leiðandi væri kannski hægt að segja að það allra besta væri ef ríkisábyrgðargjaldið væri hærra en það álag sem það þarf að borga á milli markaðs- og ríkisábyrgðarlána. Þá mundi það veigra sér við því að taka nokkurn tímann lán sem njóta ábyrgðar Reykjavíkurborgar og smám saman yrði lánastabbi Orkuveitu Reykjavíkur algjörlega á markaðslegum forsendum. Þá yrði hv. þm. Pétur Blöndal glaður.

Þetta er merkilegt mál að því leytinu til að fjárfestingarhegðun þessa fyrirtækis sem er stórt á íslenskan mælikvarða mun breytast. Það var eitt fróðlegt í ræðu hæstv. ráðherra þegar hann kynnti málið til sögunnar, það var þegar hann talaði um markmiðið með þessum lögum. Eftir því sem hæstv. ráðherrann sagði virtist eina markmiðið með lögunum vera að uppfylla skyldur við Evrópusambandið eða við EES-samninginn. Mér finnst gengið svolítið langt ef lagasetning á Alþingi hefur engan sérstakan tilgang fyrir land og þjóð, ef ráðherra „presenterar“ það bara þannig að þetta sé til að uppfylla einhverja löngun eða þörf hjá einhverjum lagasmiðum úti í löndum.