139. löggjafarþing — 34. fundur,  24. nóv. 2010.

Lúganósamningurinn um dómsvald og um fullnustu dóma í einkamálum.

234. mál
[16:30]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. dómsmálaráðherra fyrir framsögu hans. Hér er um þjóðréttarsamning að ræða sem lagt er til að við endurnýjum því að fyrri samningur var samþykktur fyrir þó nokkru síðan og komin er tillaga um að hann verði uppfærður eins og segir í frumvarpinu.

Það sem mig langar að spyrja um varðar helstu breytingar á samningnum síðan 2007 sem lagt hefur verið til að yrðu lögfestar. Í frumvarpinu segir að ein veigamesta breytingin í hinum nýja samningi sé sú að Evrópusambandið sem stofnun sé nú aðili að samningum í stað einstakra ríkja sambandsins áður. Evrópusambandsríkin koma þar fram sem ein heild að undanskilinni Danmörku sem vikið er að í innganginum. Þar kemur fram að Danmörk standi fyrir utan Evrópusambandið því að samningurinn sé raunverulega á milli þeirra aðildarríkja sem Evrópusambandið inniheldur, Danmerkur og EFTA-ríkjanna. Hvernig stendur á því að Danmörk er ekki talin þarna með Evrópusambandsríkjunum og þá með Evrópusambandið í forsvari? Mér finnst þetta frekar einkennilegt því að ein veigamesta breytingin sem boðuð er í frumvarpinu er að samningurinn taki gildi að íslenskum lögum til að hægt sé að uppfylla tvíeðliskenninguna á þeim forsendum að Evrópusambandið komi þarna fram sem einn aðili.

Ég spyr ráðherra jafnframt: Er þetta enn eitt frumvarpið sem er tengt aðlögunarferli Evrópusambandsins þar sem það kemur fram í fyrstu rökum sem talin eru upp þar að við þurfum að fara þessa leið með frumvarpið, það séu helstu breytingarnar?