139. löggjafarþing — 34. fundur,  24. nóv. 2010.

Lúganósamningurinn um dómsvald og um fullnustu dóma í einkamálum.

234. mál
[16:33]
Horfa

dómsmála- og mannréttindaráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Nei, þetta er ekki bundið aðlögunarferli, enda komum við að samningnum sem sjálfstætt ríki, óháð Evrópusambandinu, eins og Danmörk gerir vegna þess að Danir samþykktu ekki Maastricht-samkomulagið á sínum tíma, sem tekur m.a. til dómsmála og ýmissa þátta þeirra. Danir þurfa því að koma sjálfstætt að málum í tvíhliða samningum. Hins vegar er rétt hjá hv. þingmanni að þetta er að sumu leyti spegill á Evrópuþróunina að því leyti að Evrópusambandið kemur í sífellt ríkari mæli fram sem heildstæð ríkjaeining. Það sama á við í ýmsum öðrum fjölþjóðlegum samningum. Ég nefni t.d. samninga við Alþjóðaviðskiptastofnunina. Evrópusambandið sér fyrir hönd aðildarríkja sinna um aðkomu að GATT-samningunum, svo dæmi sé tekið, en einstök ríki koma ekki hvert um sig að þeim samningum. Evrópusambandið sem kemur fram sem sjálfstæð eining. Það hygg ég að hefði ekki gerst á árum áður þannig að það er rétt hjá hv. þingmanni að mínu mati og samkvæmt mínum skilningi að að þessu leyti er það spegill á þá þróun sem er að verða innan Evrópusambandsins.