139. löggjafarþing — 34. fundur,  24. nóv. 2010.

Lúganósamningurinn um dómsvald og um fullnustu dóma í einkamálum.

234. mál
[16:34]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég átta mig ekki alveg á því hvers vegna hæstv. ráðherra telur að Danmörk sé ekki þarna inni vegna Maastricht-skilyrðanna. Meinar þá hæstv. ráðherra að Danmörk sé ekki þarna inni vegna þess að þeir eru ekki búnir að taka upp evruna? Hvað þá með öll hin ríkin sem standa fyrir utan myntsamstarfið? Skil ég hæstv. dómsmálaráðherra rétt, kemur Evrópusambandið þá fram í þessum samningi sem samband ríkja sem eru búin að taka upp evruna? Þarna eru tiltekin 11 önnur sambandsríki, svo sem Tékkland, Kýpur, Slóvakía, Slóvenía og fleiri sem koma fram gagnvart þessum samningi sem sérríki og tala hvert fyrir sig.

En að öðrum málum. Hæstv. dómsmálaráðherra taldi upp mörg mál sem samningurinn snýr ekki að. Hann talaði um gildissvið samningsins. Samningurinn gildir ekki t.d. um skattamál, tollamál eða stjórnsýslumál. Það eru undanskilin mál sem varða persónulega réttarstöðu manna, rétthæfi og geðhæfi og annað. Hefði ekki verið réttara að telja frekar upp að hverju samningurinn snýr samkvæmt íslenskum rétti? Fram kom í máli ráðherrans að ekki hafa fallið dómar um mörg mál hér á landi er varða Lúganósamninginn þannig að ég bið ráðherrann að nefna líka til sögunnar dæmi um mál þar sem reynt hefur á hann. Að sjálfsögðu eigum við að taka þátt í alþjóðlegri þróun og öðru og þar sem ráðherrann neitaði því að frumvarpið væri hluti af því að við erum í aðlögunarferli hjá ESB ber það þess þó mjög merki að það sé nátengt Evrópuréttinum. Vil ég þá að ráðherrann nefni dæmi um þau réttarsvið sem samningurinn nær yfir og dæmi um dóm (Forseti hringir.) fyrir Hæstarétti þar sem hefur reynt á samninginn.