139. löggjafarþing — 34. fundur,  24. nóv. 2010.

dómstólar.

246. mál
[16:47]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég biðst afsökunar á því að halda að ég væri í andsvari við hæstv. dómsmálaráðherra en ég fer í staðinn í ræðu úr því að ég bað um orðið.

Ég er svo sannarlega sammála efni frumvarpsins um að hér þurfi að fjölga dómurum og hef talað fyrir því að núverandi ríkisstjórn þurfi að forgangsraða í ríkisfjármálum og leggja áherslu á það sem skiptir máli nú rúmum 24 mánuðum eftir hrunið, þeir eru að verða 25. Það þarf að forgangsraða í hvað á að leggja fjármagn, ríkisfé, og kem ég að því á eftir.

Í þessu frumvarpi er lagt til að dómurum við Hæstarétt verði fjölgað tímabundið um þrjá frá og með næstu áramótum. Er það mikið fagnaðarefni því að álagið á Hæstarétt hefur aldrei verið eins og nú. Jafnframt er lagt til að dómurum við héraðsdóm verði tímabundið fjölgað um fimm frá 1. mars 2011. Það er einnig fagnaðarefni að fram kemur í frumvarpinu að sú fjölgun í héraðsdómstólum verði aðallega í Reykjavík og er það líklega vegna eðlis þeirra mála sem urðu í kjölfar hrunsins.

Nú ætla ég að koma inn á það sem mér finnst vera aðalmálið í þessu frumvarpi því að mér hefur verið tíðrætt um að ríkisstjórnin þurfi að forgangsraða. Ég hef nefnt löggæsluna, ég hef nefnt dómstólana, ég hef nefnt Landhelgisgæsluna að ógleymdri aðstoð við heimilin og fyrirtækin í landinu og þeim verkum sem ríkisstjórnin stendur frammi fyrir og þarf að koma sér í, auk þess að forgangsraða. Sú undarlega staðreynd kemur frá fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytisins í frumvarpinu að til að vega upp á móti þeim útgjaldaauka sem samþykkt þessa frumvarps hefur í för með sér, þ.e. að fjölga dómurum sem verður útgjaldaauki fyrir ríkið upp á 128 milljónir á næsta ári og árlegur kostnaðarauki eftir það 145,5 milljónir, komi ríkissjóður ekki að þeim útgjaldaauka á nokkurn hátt. Til að vega upp á móti þessum útgjaldaauka, frú forseti, er ráðgert að hækka dómsmálagjöld. Ríkisstjórnin leggur til í þessu frumvarpi að þau gjöld eigi að taka í gegnum dómstólana af þeim sem þurfa að höfða mál og af þeim sem verja sín mál.

Ég minni hæstv. dómsmálaráðherra á að honum ber að fara eftir stjórnarskrá eins og öðrum. Í stjórnarskránni er skýrt kveðið á um að allir eigi að fá úrlausn sinna mála fyrir óháðum dómstólum án tillits til efnahags. Mér finnst framkvæmdarvaldið vera komið út á hálan ís með því að leggja til fjölgun dómara (Dómsmrh.: Já.) og taka svo af þeim sem þurfa að sækja rétt sinn fyrir dómstólum. Ég vil að hæstv. dómsmálaráðherra fari yfir þá staðreynd í þessu frumvarpi. Hvernig í ósköpunum stendur á því að leggja á þennan kostnaðarauka á þá aðila sem sækja rétt sinn og verja sig þegar skýrt er kveðið á um að allir skuli njóti þess að fara með mál sín fyrir óháða dómstóla óháð efnahag? Ég óska eftir því að hæstv. dómsmálaráðherra komi inn á þetta á eftir.