139. löggjafarþing — 34. fundur,  24. nóv. 2010.

dómstólar.

246. mál
[16:51]
Horfa

dómsmála- og mannréttindaráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég þakka fyrir þessa umræðu. Þeir sem til máls hafa tekið taka undir meginsjónarmið frumvarpsins eða nauðsyn þessara breytinga, fjölgun héraðsdómara og hæstaréttardómara.

Hv. þm. Birgir Ármannsson vék að umræðu sem fram hefur farið um millidómstig og hvaða áform séu uppi þar að lútandi. Þá er þess að geta að í haust var efnt til málþings þar sem heita má að öll félög lögmanna, lögfræðinga, dómara og annarra aðila sem koma að laga- og dómskerfinu í landinu sammæltust um að við ættum að vinna að millidómstigi. Það er reyndar í samræmi við hugmyndir sem hafa lengi verið uppi í kerfinu og í skýrslu sem kom fram haustið 2008 þar sem þeim hugmyndum var rækilega hreyft. Þau félög sem ég vísaði til hafa haft samband við dómsmálaráðuneytið og þar höfum við tekið undir samstarfshugmyndir þeirra. Á næstu dögum verður erindi látið ganga þar sem óskað er eftir því að þessi félög tilnefni fulltrúa í nefnd sem hefji undirbúning að millidómstigi. Að sjálfsögðu höfum við þann fyrirvara á að vita hvað slíkt kostar. Þetta er mannréttindamál, það snertir mannréttindi að einstaklingar geti skotið máli sínu fyrir tvö dómstig. Allt of mörg mál hafa ekki komist til Hæstaréttar. Málum hafa verið settar skorður, ákveðnar girðingar. Ef sektir eða dómar eru undir tilteknu marki hefur verið heimild fyrir því að vísa málum frá Hæstarétti og þau því ekki komið fyrir fleiri dómstig. Það er nokkuð sem brýtur gegn hugmyndum manna um eðlilegt réttarfar.

Staðreyndin er sú að allar líkur eru á því að með fjölgun dómstiga verði aukinn tilkostnaður þótt ýmislegt hagræði vinnist eins og að færri mál hafni hjá Hæstarétti fyrir vikið. Ég sannfærðist af máli lögmanna á málstefnunni í haust og þeim skýrslum sem fyrir liggja að við fengjum betra og markvissara dómskerfi en það kynni að verða kostnaðarsamara. Þetta munum við fela sérfræðinganefndinni með fulltrúum fyrrgreindra aðila til að setjast yfir á næstu vikum og leggja tillögur fyrir dómsmálaráðuneytið.

Varðandi tilkostnaðinn er það alveg rétt hjá hv. þm. Vigdísi Hauksdóttur að ráðning fleiri hæstaréttardómara og héraðsdómara kostar talsvert. Það er vikið að þeim kostnaði í greinargerð sem fylgir frumvarpinu en jafnframt er þess getið að álagning dómsmálagjalda eigi að vega upp á móti þeim kostnaði. Þá er spurningin: Er þar með vegið að mannréttindum? Við hyggjum að svo sé ekki enda verður búið þannig um hnútana að tekjulágum verði hlíft. Talað er um stefnufjárhæðir þar sem dómsgjöld ráðast af umfangi mála og í sumum tilvikum hafa gjaldþrotamál í stórum fjármálafyrirtækjum verið nánast gjaldfrí en horfið yrði frá þeirri stefnu. Hugmyndin er ekki sú að leggja gjöld á þá sem enga peninga hafa heldur horft til stóru málanna þar sem verið er að véla um mjög háar upphæðir og sett í forgang að fá slíkar kröfur í ríkissjóð til að fjármagna réttarkerfið.