139. löggjafarþing — 34. fundur,  24. nóv. 2010.

dómstólar.

246. mál
[17:02]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta er athyglisverð umræða. Fram kom í ræðu hæstv. dómsmálaráðherra að leggja ætti gjöld á einhverja, a.m.k. þá sem geta borgað, leggja gjöld á þá stóru. Þetta er mjög matskennt, engin mælistika kemur fram í frumvarpinu um hver er stór og hver er lítill. Ég vil minna á að svo virðist vera að fleiri þúsund milljónir hafi verið afskrifaðir hjá þeim sem höfðu mest umleikis fyrir hrun. Eru viðkomandi aðilar þá skilgreindur sem stórir eða eru viðkomandi skilgreindir sem litlir samkvæmt frumvarpinu? Erum við að tala um 10 milljónir eða 100 milljónir? Erum við að tala um milljarð eða 10 milljarða? Hvar eru mörkin?

Ég vil benda hæstv. dómsmálaráðherra á að sú matsregla sem kemur fram í frumvarpinu er brot á jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar, að allir skuli geta fengið úrskurð sinna mála fyrir óháðum dómstóli án tillits til efnahags. Það er skýrt brot á jafnræðisreglu að taka eigi þessi dómsmálagjöld af sumum en ekki öðrum.

Ég bið ráðherra um að fara yfir það lið fyrir lið hvernig þessi regla er hugsuð. Að skilja eftir svona opinn tékka inn í framtíðina er fyrst og fremst skýrt brot á jafnræðisreglu. Í öðru lagi skýrt brot á því að þegar aðili fer með mál sitt fyrir dóm viti hann hvort hann þurfi að greiða þessa upphæð eða ekki. Dæmalaust að þetta skuli vera komið fram með þessum hætti hér.

Einnig vil ég minna hæstv. dómsmálaráðherra á að mikil vinna hefur verið unnin og mikil gögn eru til um það að taka upp forskrift að milliliðalausu dómskerfi þar sem frumvarp um það var nánast tilbúið í ráðuneyti hans rétt áður en bankarnir hrundu 2008. Ég bendi honum á að það er mjög gott innlegg í að taka upp þriðja dómstigið.