139. löggjafarþing — 34. fundur,  24. nóv. 2010.

landsdómur.

247. mál
[17:17]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. dómsmála- og mannréttindaráðherra fyrir skýr svör. Þá er það komið fram sem mikilvægt er, að frumvarpið er fram komið að tillögu forseta landsdóms og að saksóknari Alþingis hefur komið að samningu frumvarpsins, a.m.k. var ein grein þess borin undir saksóknarann og ég óska eftir að hæstv. ráðherra geri grein fyrir hver hún er.

Það er mikilvægt að þetta komi fram um frekari meðferð þessa máls fyrir landsdómi. Ég hygg að það sé einsdæmi að þegar maður er borinn þungum sökum komi þeir sem dæma í málinu og sækja það að því að breyta málsmeðferðarreglum málsins (Forseti hringir.) eftir að ákæra hefur verið gefin út eða hún samþykkt. Það verður fróðlegt að sjá hvort Mannréttindadómstóll Evrópu, (Forseti hringir.) rati málið þangað, fallist á þá málsmeðferð sem hér liggur fyrir.