139. löggjafarþing — 34. fundur,  24. nóv. 2010.

landsdómur.

247. mál
[17:35]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S):

Frú forseti. Það er allt rangt við frumvarpið sem liggur fyrir þinginu. Það er allt rangt við þetta mál. Í fyrsta lagi hafa álitaefni sem snúa að lögum um ráðherraábyrgð og landsdóm verið til meðhöndlunar í þinginu bróðurpart ársins. Þingið komst að þeirri niðurstöðu eftir ítarlega rannsókn í janúar, febrúar og mars að það væri ekkert tilefni til að breyta lögunum um landsdóm. Þá nálguðust menn viðfangsefnið þannig að það væri rangt að taka fyrst ákvörðun hvort ætti að ákæra og síðan taka ákvörðun hvort breyta ætti lögunum um landsdóm eða grundvellinum sem ákæran mundi mögulega vera byggð á. Það tel ég að hafi verið skynsamleg niðurstaða.

Ég ætla að leyfa mér í örstuttu máli að vísa til þess sem kom fram hjá formanni nefndarinnar sem var með málið til skoðunar í þinginu, hv. þm. Atla Gíslasyni. Hann komst þannig að orði í umræðu um málið, með leyfi forseta: „var það niðurstaða nefndarinnar að leggja til grundvallar við vinnu þingmannanefndar gildandi lagaramma um ráðherraábyrgð og landsdóm. Það varð niðurstaða nefndarinnar að breyta ekki lögum, ekki var talið tilefni til lagabreytinga. Og ég hygg að nefndin hafi verið samhljóða um það.“

Hv. þm. Eygló Harðardóttir sat í þessari sömu nefnd og hún tók það fram í umræðum á þinginu 20. september sl. að nefndarmenn hefðu nýtt tímann vel. Svo segir hv. þingmaður, með leyfi forseta: „tíminn var nýttur mjög vel til að grandskoða lög um landsdóm og ráðherraábyrgð. Niðurstaða þeirrar vinnu var að ekki væri nauðsynlegt að fara í breytingar á lögum um landsdóm.“

Síðar segir þessi sami þingmaður á öðrum stað að hún hafi, eins og segir í hennar ræðu, með leyfi forseta, „lesið fjölda greina, þar á meðal eftir Róbert Spanó, Eirík Tómasson og Andra Árnason þar sem þeir fjalla um landsdómslögin og ráðherraábyrgðarlögin. Á grundvelli þess sannfærðist ég um að lögin sem við værum að vinna eftir uppfylltu mannréttindaákvæði stjórnarskrárinnar og að það væri mjög mikilvægt, ef það væri minnsti efi hvað það varðar, að við færum ekki að brjóta mannréttindi á fólki með því að breyta lögunum eftir á og jafnvel að stuðla að afturvirkni laga eða hanna lögin í kringum einhverja einstaklinga sem við ætluðum okkur að ákæra.“

Virðulegi forseti. Ég læt duga þessar tilvitnanir í þingmenn sem sátu í nefndinni sem var falið af okkur á Alþingi að taka málin til gaumgæfilegrar skoðunar. Það má í raun og veru segja að hæstv. ráðherra komi með tillögu sem gengur þvert á þann vilja sem þingið er þegar búið að lýsa yfir í málinu. Þingið er búið að taka þetta allt til skoðunar í sérstaklega skipaðri nefnd og komst að þeirri niðurstöðu að ekkert tilefni væri til að taka lögin til endurskoðunar. Þau stæðust allar kröfur. Allir okkar helstu sérfræðingar voru kallaðir í þingið til að ræða málið við þá sem höfðu þetta hlutverk og höfðu fengið umboð frá okkur í þingsal, þvert á alla flokka. Nú kemur sem sagt hæstv. ráðherra eftir að ferlinu er lokið, eftir að hann tók þátt í að ákæra þann sem svara til saka þarf fyrir landsdómi og segir: Nei, þetta er ekki svona eins og þingið hélt fram. Það er ekki þannig að það sé eitthvað athugavert við að breyta lögum eftir á. Ykkur yfirsást svo margt í skoðun ykkar á lögunum. Ég sem er ráðherra í þessu landi fer fyrir framkvæmdarvaldinu. Ég veit betur en þingið og ætla að leggja það til við ykkur að þið endurhugsið þetta og takið tillögur mínar til greina á Alþingi vegna þess að það er svo mikilvægt til að tryggja réttindi sem okkur hafa yfirsést.

Þingið er búið að afgreiða þessi álitaefni og það er ekkert tilefni.

Ég sagði í upphafi ræðu minnar að það væri allt rangt við þetta. Auðvitað er eitthvað stórkostlega rangt við það þegar kemur frá framkvæmdarvaldinu tillaga til þingsins sem er með fullt forræði á þessu máli og hefur haft alla tíð. Það er beinlínis skrifað inn í lögin að þingið tekur ákvörðunina. Það er ekki framkvæmdarvaldsákvörðun að ákæra í þessum málum. Það er þingleg ákvörðun. Alveg sérstaklega skrifuð löggjöf um ráðherraábyrgðina og um landsdómslögin að allt frumkvæði í þessu efni verður að koma frá þinginu. Það getur ekki legið hjá framkvæmdarvaldinu. Þess vegna hlýtur maður að spyrja sig: Hvað er eiginlega á seyði þegar framkvæmdarvaldið er farið af stað með stuðningi frá þeim sem á að dæma í málinu og eftir tillögu hans eftir að hafa haft samráð við þann sem fer síðan með saksóknina og leggur til eftir á að reglunum verði breytt?

Hæstv. ráðherra segir í framsögu sinni að þetta sé allt minni háttar, að það skipti ekki máli, þetta varði formið. Hann hefði átt að vita hversu viðkvæmt málið er eftir það sem gerst hefur á þessu ári og hversu sjálfsagt og eðlilegt hefði verið að koma með ábendingu til þingsins, t.d. til forseta þingsins, formanna flokkanna eða til allsherjarnefndar eins og bent er á, leita eftir því að það yrði skoðað af yfirvegun hvort minnsta tilefni væri til að taka þessa reglu til skoðunar. Það höfum við reyndar gert áður á þessu ári og komist að niðurstöðu. Nei, það er farin sú leið að ráðherra sem er hluti framkvæmdarvaldsins teflir fram hugmyndum sínum um hvernig þingið eigi að bregðast við. Þetta er rangt. Þetta er röng nálgun. Þetta er of seint og þetta brýtur gegn öllum prinsippum sem við höfum ákveðið fyrr á þessu þingi. Það er eitthvað mikið rangt við samkrullið sem átt hefur sér stað milli framkvæmdarvalds, dómsvalds og ákæruvalds án aðkomu þess sem hefur alla hagsmuni í málinu, að breyta reglunum sem dómsmálið verður rekið eftir. Þess vegna verð ég að harma það að menn skuli ekki sjá það eftir allt sem gerst hefur í umræðunni um ráðherraábyrgð og landsdóm á þessu ári, að menn skuli ekki sjá jafnsjálfsagða hluti eins og þessa, að í besta falli hefði komið til greina að frumkvæði í þessu efni hefði komið héðan frá þinginu. Þingið hefur haft allt forræði málsins fram til þessa og það er falskur hljómur á þessum tímapunkti málsins í því að ráðherra skuli hafa afskipti af því eftir að ákært hefur verið.

Ég ætla hvorki að gera að sérstöku umtalsefni ákvörðunina sem þingið tók né nota tilefnið til að ræða þá staðreynd að hinum ákærða hefur ekki enn verið skipaður verjandi í málinu. Það hefði verið tilefni fyrir þingið að grípa inn í og hnykkja á því lagaatriði vegna þess að það hefur eitthvað vafist fyrir þeim sem um þau mál véla, að hnykkja á því í landsdómslögunum fyrst það er svona óskýrt. Auðvitað átti það að gerast um leið og þingið var búið að afgreiða ákæru sína að hann fengi skipaðan verjanda. Það hefði verið ástæða fyrir hæstv. ráðherra fyrst hann vildi skýra lagarammann að tjá sig um þann þátt málsins. Nei, hér eru allt önnur mál undir og hæstv. ráðherra hefur í því sambandi nefnt sérstaklega að tryggja þurfi samfellu í meðferð landsdóms þannig að í lok kjörtímabils dómendanna verði tryggt að hann verður ekki mannaður að nýju. Það er ekki til að hafa áhyggjur af. Auðvitað hefðum við leyst það á Alþingi. Við hefðum kosið sama fólkið aftur til að það hefði klárað störf sín. Það þarf enga breytingu á lögunum um landsdóm til að sjá til þess að það verði í lagi. Þess er ekki þörf. Það má reyndar segja um flest önnur atriði sem ég vil forðast að fara nákvæmlega inn í við 1. umr. Málið fer til nánari skoðunar rati það til nefndar. Það slær mann þannig að hér sé um að ræða atriði sem ráðherrann hafi ekki sjálfur, eftir ítarlegan lestur á landsdómslögunum, áttað sig á að þyrfti að færa til betri vegar heldur þeir sem dæma eftir lögunum, sem er sérstakur kapítuli.

Við erum með landsdóm sem er kosinn með þessum sérstaka hætti. Hann fjallar um mál þar sem í fyrsta sinn í sögunni er látið reyna á reglurnar. Rétt áður en hann kemur saman í fyrsta sinn kemur dómurinn sjálfur, að því er virðist, með tillögur að því hvernig hlutirnir skulu fara fram og það er lagt til við þingið að það sé samþykkt. Ef ágreiningur rís um einhver atriði verður það við sjálfa uppsprettu málsins sem menn þurfa að eiga orðastað. Það er allt rangt við þetta mál. Ég harma að það skuli vera komið fram. Ég harma hvernig málið kemur fyrir þingið. Ég tel að þingið sé þegar búið að taka afstöðu til landsdómslaganna og allra atriða sem lúta að því hvort styrkja þurfi þessa lagaumgjörð. Það hefur verið gert í samráði allra flokka og niðurstaðan varð sú að það væri óþarfi. Þess vegna er frumvarpið eins og ég sé það óþarfi.