139. löggjafarþing — 34. fundur,  24. nóv. 2010.

landsdómur.

247. mál
[17:46]
Horfa

dómsmála- og mannréttindaráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil geta um það í upphafi að ég mun síðar í umræðunni svara þeim spurningum sem ég átti ósvarað í andsvörum áðan, m.a. við hv. þm. Ragnheiði Elínu Árnadóttur. Varðandi ræðu hv. þingmanns, formanns Sjálfstæðisflokksins, er svo að skilja að menn vilji standa vörð um mannréttindi og að það samræmist ekki slíku að gera breytingar á lögum um landsdóm. Eigum við ekki að ræða um þá mannréttindaþætti sem fyrst og fremst snúa að skipan og samfellunni í störfum landsdóms? Þá er ég að geta þess að til þess að standast ákvæði mannréttindasáttmála Evrópu er einmitt kveðið á um slíka samfellu vegna þess að að öðrum kosti þyrfti þingið og meiri hluti þingsins, sem hv. þingmaður og samherjar hans hafa margir sakað um hlutdrægni í þessu máli, að skipa í landsdóminn. Við erum með öðrum orðum að tryggja mannréttindi hvað þetta snertir.

Síðan segir hv. þm. Bjarni Benediktsson: Þetta er ekkert mál, við kjósum bara sömu aðila. Þetta er veigamesti þáttur breytinga frumvarpsins sem er allt í einu orðið ekkert mál en samt er verið að blása það upp með þessum hætti.

Svo eru aðrir þættir í þessum lagabreytingum sem snúa að því að það skal farið með öðrum hætti með það vald sem hvílir hjá forseta landsdóms sem hann getur beitt einn til bráðabirgða. Hann skal kveðja sér til stuðnings löglærða fulltrúa úr landsdómi. Síðan er ákvæði um að færa þetta til nútímans, um hljóðupptökur í málaferlunum.

Hv. þingmaður er nú búinn að segja okkur það að þrátt fyrir allan þennan æsing (Forseti hringir.) séum við að fjalla um breytingar sem eru ekkert mál, segir hann. Við kjósum bara sama landsdóminn aftur. (Forseti hringir.) Hitt eru þá tæknileg úrlausnarefni. Eigum við ekki að ræða málefnin og sleppa dylgjunum?