139. löggjafarþing — 34. fundur,  24. nóv. 2010.

vörugjald af ökutækjum.

92. mál
[18:42]
Horfa

Flm. (Mörður Árnason) (Sf):

Forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðu hans sem var mjög glögg að vonum og fyrir stuðning hans við það mál sem hann flytur með mér, eins og áður hefur komið fram. Það er alveg rétt hjá þingmanninum, við erum í mjög sérstökum aðstæðum og stöndum í sérstökum sporum vegna þess að sá mikli kostur sem það er almennt að bílaflotinn endurnýjast hratt, og hann gerði það með eindæmum á Íslandi núna síðustu árin áður en áfallið varð, er ekki lengur fyrir hendi. Áður var það þannig, eins og ég minntist á í umræðunni um frumvarp hæstv. fjármálaráðherra, að orkuskipti og breytingar á bílum í umhverfisvænni átt geta og hafa gengið mjög hratt. Má nefna ýmsa áfanga í bifreiðatækni sem veldur því t.d. sem maður tekur sérstaklega eftir af því að maður man aldrei hvað gerðist í eigin lífi og eigin samtíma, að þegar komið er í lönd þriðja heimsins eða lönd út fyrir Evrópu og hliðstæð ríki og öll öndunarfæri fyllast af mengun frá bílum sem eru meira og minna frá fyrri tímum, rifjast það upp að auðvitað hefur mikið gerst í þessum málum á Íslandi m.a. vegna þess að Íslendingar hafa viljað fá nýjar græjur og nýja bíla og endurnýjað tæki sín mjög hratt. Það er ekki fyrir hendi núna.

Þá eru kannski tvær leiðir til að bregðast við því. Önnur er sú að efla menn til að gera breytingar á þeim bílum sem þeir eiga, eins og við hv. þm. Pétur Blöndal leggjum til. Hin kann að felast í þeirri hugmynd Péturs, sem ég get tekið undir sem a.m.k. afar athyglisverða, að auka hvata til innflutnings með því að lækka vörugjöld eða jafnvel afnema þau. Ég sagði það í gær og get alveg endurtekið það að ég held að vörugjaldið sé einn af þeim sköttum sem við þyrftum að losna við vegna þess að hann hefur óheilbrigð áhrif á samkeppni og val neytenda og sú pólitík sem lýsir sér í margföldum undanþágum frá vörugjaldinu er ekki heppileg skattstefna. Stuðningur ríkisins á að koma fram í öðrum efnum en þeim.

Að lokum þakka ég fyrir þessa umræðu og vona að þetta mál verði að gagni.