139. löggjafarþing — 35. fundur,  25. nóv. 2010.

lausn á skuldavanda heimilanna.

[10:33]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S):

Frú forseti. Við höfum á þessu haustþingi rætt þó nokkuð um skuldavanda heimilanna, leiðir til að koma fjölskyldunum í landinu til hjálpar vegna greiðsluvanda þeirra. Þann 17. mars á þessu ári kynnti ríkisstjórnin lokasvar vegna skulda- og greiðsluvanda heimilanna. Auðvitað þurfti hæstv. forsætisráðherra síðar að draga þau ummæli til baka vegna þess að ljóst var að hún hafði ekki náð utan um vandann. Eftir mótmælin á Austurvelli í upphafi þessa þings var efnt til samráðs milli flokkanna til lausnar á vandanum en síðan þá hefur hæstv. forsætisráðherra ítrekað lýst því yfir að lausnir ríkisstjórnarinnar séu á næsta leiti, ýmist fyrir eða eftir helgi eða þær yrðu kynntar næstu daga. Það dróst nokkuð að fá niðurstöðu í útreikninga sem sérfræðingar ríkisstjórnarinnar unnu að en nú er um að bil hálfur mánuður liðinn síðan þeir útreikningar birtust og lítið hefur farið fyrir samráði í millitíðinni. Ég kannast ekki við að stjórnarandstaðan hafi á einum einasta fundi síðan þá verið höfð með í ráðum til að útfæra einstakar leiðir. En hæstv. forsætisráðherra lýsir því áfram yfir að lausnir vegna vandans verði kynntar á næstu dögum, það gerði hún síðast í þessari viku.

Nú vil ég bera upp þá spurningu við hæstv. forsætisráðherra hvort henni sé einhver alvara með þessum yfirlýsingum. Hvaða innstæða er fyrir þeim? Verða lausnirnar byggðar á einhverju samráði við ríkisstjórnina? Er von á því að markvissar tillögur komi í þessari viku sem munu aðstoða fólk í vanda, eða gerist það í næstu viku eða e.t.v. á næsta ári?

Staðreynd málsins er sú að það versta sem við gerum á Alþingi er að senda út skilaboð til þjóðfélagsins um að það sé eftir einhverju að bíða ef það eru ekkert nema orðin tóm.